Úr leik Snæfells og Fjölnis fyrr í vetur. Ljósm. sá

Hólmarar töpuðu naumlega

Fyrsti sigur KR í vetur kom í gær þegar liðið sigraði Snæfell í Domino‘s deild kvenna í körfubolta, 78-74. KR konur mættu sterkar til leiks og skoruðu níu stig gegn engu fyrstu þrjár mínútur leiksins. Þá vöknuðu Hólmarar en náðu þó ekki að jafna metin í fyrsta leikhluta og staðan 22-15 fyrir KR þegar leikhlutanum lauk. Í öðrum leikhluta söxuðu Snæfellskonur hægt og rólega á forystu Vesturbæinga og náðu að minnka muninn niður í eitt stig eftir 18 mínútur. KR ingar gáfu þó foystuna ekki eftir og leiddu með 41 stigi gegn 36 þegar gengið var til hálfleiks. Í síðari hálfleik héldu KR konur áfram að leiða leikinn Hólmarar hleyptu þeim ekki langt frá sér en náðu þó aldrei að jafna og lokatölur 78-74 KR í vil.

Hjá Snæfelli var Anna Soffía Lárusdóttir stigahæst með 22 stig og sjö fráköst, Tinna Guðrún Alexandersdóttir skoraði 16 stig og tók fimm fráköst, Haiden Denise Palmer skoraði 15 stig, tók sjö fráköst og gaf átta stoðsendingar, Emese Vida skoraði níu stig og tók tólf fráköst, Kamilé Berenyté skoraði sex stig og tók sjö fráköst og Rebekka Rán Karlsdóttir skoraði sex stig.

Í liði KR var Annika Holopainen atkvæðamest með 33 stig og 16 fráköst, Taryn Ashley Mc Cutcheon var með 19 stig og 12 stoðsendingar, Eygló Kristín Óskarsdóttir var með ellefu stig, Unnur Tara Jónsdóttir skoraði fjögur stig, Perla Jóhannsdóttir skoraði þrjú stig og Ástrós Lena Ægisdóttir, Ragnhildur Arna Kristinsdóttir og Björg Guðrún Einarsdóttir voru með tvö stig hver.

Næsti leikur Snæfells er þegar liðið tekur á móti Skallagrími í Vesturlandsslag á miðvikudaginn kl. 19:15.

Líkar þetta

Fleiri fréttir