Snæfell í leik gegn Fjölni í síðasta mánuði. Ljósm. sá

Keflvíkingar höfðu betur gegn Snæfelli

Snæfell tapaði fyrir Keflvíkingum þegar liðin mættust í Hólminum í Domino‘s deild kvenna í körfubolta í gær. Liðin fylgdust að í jöfnum fyrsta leikhluta og staðan 31-28 í lok leikhlutans. Í öðrum leikhluta fóru gestirnir að skilja sig hægt og örugglega frá heimakonum og leiddu með 13 stigum þegar gengið var til klefa í hálfleiks, 54-41. Sama var uppi á teningnum eftir hléið, gestirnir héldu áfram að leiða og lokatölur leiksins 91-79 fyrir Keflvíkingum.

Í liði Snæfells var Emese Vida atkvæðamest með 22 stig og 18 fráköst, Haiden Denise Palmer var með 16 stig, 15 fráköst og sex stoðsendingar, Tinna Guðrún Alexandersdóttir og Anna Soffía Lárusdóttir voru með tólf stig hvor, Rebekka Rán Karlsdóttir skoraði níu stig og átti sex stoðsendingar og Kamilé Berenyté skoraði átta stig og tók átta fráköst.

Hjá Keflvíkingum var Daniela Wallen Morillo atkvæðamest með 37 stig og 17 fráköst, Katla Rún Garðarsdóttir skoraði 16 stig, Anna Ingunn Svansdóttir skoraði 14 stig, Emelía Ósk Gunnarsdóttir skoraði tíu stig, Agnes María Svansdóttir og Erna Hákonardóttir skoruðu sex stig hvor og Salbjörg Ragna Sævarsdóttir skoraði tvö stig og tók fimm fráköst.

Snæfell situr nú í sjötta sæti deildarinnar með fjögur stig, jafn mörg og Breiðablik í sætinu fyrir neðan. Næsti leikur er gegn KR á sunnudaginn, 21. febrúar, kl. 16:00.

Líkar þetta

Fleiri fréttir