Marinó Þór skoraði tólf stig í leiknum. Ljósm. Skallagrímur.

Borgnesingar ráðalausir á Álftanesi

Skallagrímsmenn mættu ofjörlum sínum þegar þeir sóttu Álftnesinga heim á föstudaginn í 1. deild karla í körfubolta. Heimamenn voru einfaldlega sterkari og sigruðu með 87 stigum gegn 61. Álftnesingar voru fljótlega í fyrsta leikhluta búnir að ná yfirhöndinni og voru komnir 12 stigum yfir þegar leikhlutinn kláraðist. Borgnesingar virtust ekki finna taktinn og náðu ekkert að saxa á forskot heimamanna sem voru komnir í þægilega 22 stiga forystu þegar gengið var til búningsklefa í leikhléi. Ekkert markvert gerðist í síðari hálfleik, Álftnesingar héldu áfram að auka forystu sína og sigruðu örugglega með 26 stigum, 87-61.

Í liði Skallagríms var Kristófer Gíslason stigahæstur með 15 stig og tíu fráköst, næstur var Marinó Þór Pálmason með 14 stig, Kristján Örn Ómarsson skoraði níu stig, Ólafur Þorri Sigurjónsson var með sjö stig, Hjalti Ásberg Þorleifsson skoraði sex stig og tók sex fráköst, Benedikt Lárusson skoraði fjögur stig og Davíð Guðmundsson og Gunnar Örn Ómarsson voru með þrjú stig hvor.  Hjá Álftnesingum var Cedrick Taylor Bowen stigahæstur með 27 stig og tók sex fráköst.

Líkar þetta

Fleiri fréttir