Elias. Ljósm. kfía.

Elias Tamburini til liðs við Skagamenn

Finnski vinstri bakvörðurinn Elias Tamburini gekk nýlega til liðs við Skagamenn frá Grindavík. Elias sem er 25 ára gamall hefur leikið 54 leiki á Íslandi síðustu þrjú tímabil með Grindvíkingum áður en hann gekk til liðs við Skagamenn.

Jóhannes Karl Guðjónsson þjálfari Skagamanna segist í samtali við Skessuhorn vera ánægður með það að fá Elias til liðs við félagið. „Ég var búinn að fylgjast með honum um tíma og hann hentar okkar leikstíl mjög vel. Hann er krafmikill og fljótur leikmaður og getur farið upp kantinn og á góðar fyrirgjafir. Ég er ekki í nokkrum vafa um það að hann á eftir að styrkja hópinn,“ segir Jóhannes Karl.

Spurður um frekari styrkingar inn í hópinn fyrir tímabilið sagði Jóhannes Karl: „Við erum auðvitað að líta í kring um okkur. En það er ekkert fast í hendi. En við erum að skoða leikmenn bæði hér heima og erlendis. Tíminn verður bara að leiða í ljós hvernig tekst til. En við megum ekki gleyma því samt að við erum með unga og efnilega stráka sem verða að fá sín tækifæri og ég treysti þeim. Nú nýlega voru níu leikmenn frá okkur valdir til æfinga með U-16, U-18 og U-19 ára landsliðum Íslands. Það segir okkur að efniviðurinn er tl staðar,“ segir Jóhannes Karl.

Líkar þetta

Fleiri fréttir