Grikkland of stór biti fyrir íslensku stelpurnar

Grikkland reyndist númeri of stórt fyrir íslenska kvennalandsliðið í körfubolta þegar liðin mættust í A riðli í undankeppni EM í gær. Íslensku stelpurnar byrjuðu leikinn af miklum krafti og hleyptu Grikkjum ekki langt framúr í upphafi leiks. Í lok fyrsta leikhluta voru Grikkir með fimm stiga forystu, 17-22. Í öðrum leikhluta var staðan svipuð, Grikkir leiddu en Íslendingar fylgdu fast á eftir. Það var þó rétt áður en gengið var til klefa í hálfleik sem íslensku stelpurnar misstu aðeins tökin og Grikkir náðu tólf stiga forystu áður en flautað var til hálfleiks, 31-43.

Grísku stelpurnar gáfu heldur í þegar síðari hálfleikur hófst og voru komnar með þægilega 23 stiga forystu í lok þriðja leikhluta, 48-71. Í lokaleikhlutanum var lítið sem íslensku stelpurnar gátu gert, Grikkir voru einfaldlega sterkara liðið og sigruðu þær með 37 stigum, 58-95.

Sara Rún Hinriksdóttir var stigahæst í liði Íslands með 17 stig og fimm stoðsendingar, Hildur Björg Kjartansdóttir skoraði 13 stig og tók níu fráköst, Bríet Sif Hinriksdóttir skoraði ellefu stig, Þóra Kristín Jónsdóttir skoraði tíu stig, Dagbjörg Dögg Karlsdóttir var með þrjú stig, Hallveig Jónsdóttir og Lovísa Björt Henningsdóttir voru með tvö stig hvor.

Ísland mætir næst Slóveníu á morgun, laugardag. Leikurinn verður sýndur á RÚV og hefst útsending kl. 15:50.

Líkar þetta

Fleiri fréttir