Ljósm. Skallagrímur.

Öruggur sigur Skallagríms

Karlalið Skallagríms í 1. deild körfuboltans sigraði Selfoss örugglega með 88 stigum gegn 64 þegar liðin mættust í Borgarnesi í gær. Liðin byrjuðu bæði vel en um miðjan fyrsta leikhluta náðu Skallagrímsmenn að sigla fram úr gestunum og voru ellefu stigum yfir í lok leikhlutans, 27-16. Lítið markvert gerðist í öðrum leikhluta og Skallagrímsmenn héldu áfram að auka forskot sitt hægt og örugglega og voru komnir í þægilega 23 stiga forystu þegar flautað var til hálfleiks, 49-27. Áfram voru Skallagrímsmenn með stjórnina á vellinum eftir hléið og í lok þriðja leikhluta var staðan 46-68 og Borgnesingar komnir í góða stöðu. Gestirnir náðu lítið að gera til að minnka muninn í fjórða leikhluta og lokastaðan 88-64.

Í liði Skallagríms var Nebojsa Knezevic atkvæðamestur með 23 stig, átta fráköst og átta stoðsendingar. Mustapha Traore skoraði 17 stig og tók tíu fráköst, Davíð Guðmundsson og Benedikt Lárusson voru með ellefu stig hvor, Hjalti Ásberg Þorleifsson skoraði tíu stig og tók sjö fráköst, Gunnar Örn Ómarsson skoraði sex stig, Kristófer Gíslason var einnig með sex stig og sjö fráköst að auki og Ólafur Þorri Sigurjónsson skoraði fjögur stig.

Hjá Selfossi var Terrence Christipher Motley stigahæstur með 13 stig og átta fráköst, Kristijan Vladovic var með ellefu stig, sjö stoðsendingar og fimm fráköst, Sveinn Búi Birgisson skoraði ellefu stig, Arnór Bjarki Eyþórsson og Aljaz Vidmar voru með sex stig hvor, Ari Gylfason og Gunnar Steinþórsson voru með fimm stig hvor, Owen Scott Young og Svavar Ingi Stefánsson áttu þrjú stig hvor og Bjarki Friðgeirsson skoraði eitt stig.

Næsti leikur Skallagríms er gegn Sindra á útivelli á föstudaginn, 29. janúar, kl. 19:15.

Líkar þetta

Fleiri fréttir