Ljósm. Skallagrímur.

Súrt tap hjá Skallagrímskonum

Skallagrímur tapaði naumlega gegn Fjölni, 74-76, þegar liðin mættust í Domino‘s deild kvenna á laugardaginn. Liðin komu bæði sterk til leiks og byrjuðu hnífjöfn en Skallagrímskonur náðu svo yfirhöndinni í lok fyrsta leikhluta og leiddu með sjö stigum í lok leikhlutans, 21-14. Fjölniskonur gáfu ekkert eftir í örum leikhluta og voru fljótar að minnka muninn en náðu þó aldrei að jafna. Þegar gengið var til hálfleiks var Skallagrímur með 39 stig gegn 34. Í þriðja leikhluta héldu Skallagrímskonur áfram að leiða en Fjölniskonur gáfu ekkert eftir og náðu að jafna þegar 28 mínútur voru liðnar af leiknum, 54-54. Skallagrímur gaf þá allt í leikinn og náði að komast stigi yfir áður en þriðji leikhluti rann út. Í lokaleikhlutanum héldu liðin uppteknum hætti, Skallagrímskonur voru með yfirhöndina allt þar til á lokamínútu leiksins þegar Fjölniskonur náðu að skora sex stig gegn engu og þar með að komast tveimur stigum yfir og landa sigri, 76-74.

Í liði Skallagríms var Nikita Telesford stigahæst með 16 stig og tólf fráköst. Keira Robinsson var með 15 stig, níu fráköst og níu stoðsendingar, Sanja Orozovic var með 15 stig og átta fráköst, Maja Michalska skoraði 13 stig, Sigrún Sjöfn Ámundadóttir skoraði níu stig, tók sjö fráköst og gaf sex stoðsendingar og Embla Kristínardóttir skoraði sex stig.

Í liði Fjölnis var Ariel Hearn stigahæst með 26 stig, 13 stoðsenindingar og átta fráköst. Lina Pikciuté var með 24 stig og 12 fráköst. Sara Carina Vaz Djassi átti tólf stig og tíu fráköst, Fanney Ragnarsdóttir skoraði tíu stig, Stefanía Ósk Ólafsdóttir skoraði þrjú og Heiða Hlín Björnsdóttir eitt.

Skallagrímur situr nú í fimmta sæti deildarinnar með sex stig eftir sex leiki. Næst mætir liðið Haukum í Borgarnesi á miðvikudaginn, 27. janúar, kl. 19:15.

Líkar þetta

Fleiri fréttir