Úr leik Snæfells og Blika. Ljósm. sá.

Snæfell sigraði eftir hnífjafnan leik við Blika

Snæfellskonur höfðu betur gegn Breiðabliki, 68-61, þegar liðin mættust í Hólminum í Domino‘s deild kvenna á laugardaginn. Jafnræði var með liðunum allan leikinn. Í fyrsta leikhluta skiptust liðin á að vera yfir og mestur var munurinn þegar Breiðablik komst fimm stigum yfir þegar sex mínútur voru liðnar af leiknum, 12-7. Snæfell var búið að jafna metin mínútu síðar en í lok fyrsta leikhluta var Breiðablik einu stigi yfir, 18-17. Enn voru liðin hnífjöfn í öðrum leikhluta og þegar gengið var til hálfleiks var Snæfell komið stigi yfir, 30-29. Í byrjun þriðja leikhluta náðu Snæfellskonur að halda sér yfir með einu eða tveimur stigum allt þar til um miðjan leikhluta þegar Blikar gáfu aðeins meira í og voru fimm stigum yfir þegar lokaleikhlutinn hófst 51-46. Heimakonur voru þó ekki hættar og gáfu allt í leikinn og jöfnuðu á 33. mínútu. Það má segja að allt hafi verið í járnum allt þar til á lokamínútu leiksins þegar heimakonur skoruðu sjö stig á móti engu og sigruðu með 68 stig gegn 61.

Í liði Snæfells var Haiden Denise Palmer atkvæðamest með 23 stig, ellefu fráköst og sex stoðsendingar. Emese Vida skoraði 14 stig og tók ellefu fráköst, Anna Soffía Lárusdóttir skoraði tíu stig og tók átta fráköst, Kamilé Berenyté skoraði einnig tíu stig og tók sjö fráköst, Rebekka Rán Karlsdóttir skoraði átta stig og Tinna Guðrún Alexandersdóttir skoraði þrjú stig.

Hjá Blikum var Jessica Kay Loera stigahæst með 24 stig, Þórdís Jóna Kristjánsdóttir skoraði tíu stig, Iva Georgieva skoraði níu stig, Birgit Ósk Snorradóttir var með sex stig, Sóllilja Bjarnadóttir skoraði fimm stig, Isabella Ósk Sigurðardóttir skoraði fjögur stig og tók ellefu fráköst og Fanney Lind G. Thomas skoraði þrjú stig.

Snæfell er nú í sjötta sæti deildarinnar með fjögur stig, jafnmörg og Breiðablik í sætinu fyrir neðan. Næst mæta Snæfellskonur Fjölni í Stykkishólmi á miðvikudaginn, 27. janúar kl. 18:15.

Líkar þetta

Fleiri fréttir