Naumt tap Skallagríms á Flúðum

Skallagrímur tapaði með tveimur stigum þegar liðið mætti Hrunamönnum á Flúðum í 1. deild karla í körfuknattleik á föstudaginn. Heimamenn komu sterkari til leiks og byrjuðu fyrsta leikhluta af meiri kraftir en gestirnir. Þá tók þjálfari Skallagríms leikhlé sem virtist kveikja á liðinu og Skallagrímur náði að jafna áður en leikhlutinn kláraðist og staðan 23-23 þegar annar leikhluti hófst. Jafnræði var með liðunum í öðrum leikhluta allt þar til Hrunamenn náðu að auka forystuna á síðustu mínútum og þegar gengið var til hálfleiks voru þeir komnir með tólf stiga forystu, 56-44. Í síðari hálfleik komu Skallagrímsmenn sterkir til leiks og náðu að skora tólf stig geng engu fyrstu fimm mínúturnar, og þar með að jafna leikinn. Þá tóku heimamenn við sér og juku forskotið á ný og staðan í lok þriðja leikhluta 67-64 heimamönnum í vil. Skallagrímur náði að komast tveimur stigum yfir í skamma stund í fjórða leikhluta en heimamenn voru fljótir að jafna og héldu naumri forystu út leikhlutann og sigruðu með 88 stigum gegn 86.

Hjá Skallagrími var Mustapha Traore atkvæðamestur með 20 stig og ellefu fráköst, Kristófer Gíslason skoraði 15 stig, Nebojsa Knezevic skoraði 13 stig, tók tíu fráköst og gaf sex stoðsendingar, Marinó Þór Pálmason skoraði einnig 13 stig og gaf átta stoðsendingar, Hjalti Ásberg Þorleifsson skoraði ellefu stig, Davíð Guðmundsson skoraði sjö stig, Benedikt Lárusson skoraði fimm stig og Ólafur Þorri Sigurjónsson skoraði tvö.

Í liði Hrunamanna var Corey Taite atkvæðamestur með 49 stig, níu fráköst og sjö stoðsendingar. Florijan Jovanov skoraði 16 stig og tók 13 fráköst, Karlo Lebo skoraði 13 stig og tók átta fráköst, Dagur Úlfarsson skoraði fjögur stig og Halldór F. Helgason, Þórmundur Smári Hilmarsson og Eyþór Orri Árnason skoruðu allir tvö stig hver.

Næsti leikur Skallagríms er gegn Selfyssingum en liðin mætast í Borgarnesi í kvöld kl. 19:15.

Líkar þetta

Fleiri fréttir