Emese Vida í baráttu við Helenu Sverrisdóttur þegar liðin mættust í fyrra. Ljósm. úr safni

Valskonur voru of stór biti fyrir Snæfell

Íslandsmeistarar Vals voru of stór biti fyrir Snæfellskonur þegar liðin mættust á Hlíðarenda í Domino‘s deild kvenna í gær. Valur sigraði næsta örugglega með með 80 stigum gegn 68. Hólmarar byrjuðu leikinn vel og Snæfell var komið fjórum stigum yfir þegar aðeins tvær mínútur voru búnar af leiknum. Þær náðu að halda yfirhöndinni fram á níundu mínútu en rétt áður en fyrsti leikhluti rann út náðu heimakonur að komast yfir og staðan 18-16 Valskonum í vil í lok fyrsta  leikhluta. Snæfell gaf ekkert eftir og náði að hanga í Völsurum áfram og staðan 37-32 í hálfleik. Litlu munaði á liðunum í þriðja leikhluta og fram í þann fjórða. Það var ekki fyrr en á lokamínútum sem Valskonur náðu að skilja sig betur frá gestunum og koma muninum í tveggja stafa tölu og lokastaða leiksins 80-68 fyrir Valskonum.

Í liði Snæfells var Haiden Denise Palmer stigahæst með 17 stig og sex fráköst, Emese Vida skoraði tíu stig, tók tólf fráköst og átti fjórar stoðsendingar, Kamilé Berenyté var einnig með tíu stig, Tinna Guðrún Alexandersdóttir skoraði níu stig, Anna Soffía Lárusdóttir var með átta stig, Rebekka Rán Karlsdóttir skoraði sjö stig, Vaka Þorsteinsdóttir skoraði fimm stig og Dagný Inga Magnúsdóttir skoraði tvö stig.

Í liði Vals var Hallveig Jónsdóttir stigahæst með 21 stig, Helena Sverrisdóttir skoraði 17 stig, tók 13 fráköst og átti átta stoðsendingar, Dagbjörg Dögg Karlsdóttir skoraði ellefu stig og gaf fimm stoðsendingar, Hildur Björg Kjartansdóttir skoraði níu stig og tók tólf fráköst, Ásta Júlía Grímsdóttir skoraði átta stig og tók átta fráköst, Lea Gunnarsdóttir skoraði átta stig og Eydís Eva Þórarinsdóttir og Sara Líf Boama skoruðu þrjú stig hvor.

Snæfell situr nú í næst-neðsta sæti deildarinnar með 2 stig eftir að hafa tapað fjórum leikjum en unnið einn. Snæfell mætir Breiðabliki í næsta leik sem verður á laugardaginn, 23. janúar, kl. 16:00 í Hólminum.

Líkar þetta

Fleiri fréttir