Skallagrímskonur. Ljósm. úr safni.

Skallagrímur tapaði fyrir Blikum

Skallagrímskonur töpuðu gegn Breiðabliki, 71-64, þegar liðin mættust í Domino‘s deild kvenna, í Smáranum í Kópavogi í gærkvöldi. Skallagrímur kom sterkari til leiks og leiddu með fimm stigum eftir fyrsta leikhluta, 22-17. Í öðrum leikhluta kviknaði á Blikum sem náðu að minnka muninn í tvö stig áður en gengið var til búningsklefa í hálfleik, 36-34. Leikurinn var frekar jafn í byrjun þriðja leikhluta en svo náðu Blikar að sigla fram úr bikameisturunum og í lok þriðja leikhluta leiddu þær með ellefu stigum, 58-47. Breiðablik hélt áfram að auka forskot sitt í byrjun fjórða leikhluta og komust mest 16 stigum yfir, 65-49. En þá kviknaði í gestunum og þær svöruðu með ellefu stigum gegn einu og staðan orðin 66-60 fyrir Blikum. Ekki komust Skallagrímskonur þó nær og Blika sigruðu með sjö stigum, 71-64.

Í liði Skallagríms var Sanja Orozovic stigahæst með 21 stig og sex fráköst, Keira Robinson skoraði 17 stig, tók sex fráköst og átti fimm stoðsendingar, Sigrún Sjöfn Ámundadóttir skoraði 13 stig og tók tíu fráköst. Nikita Telesford skoraði fimm stig og tók sex fráköst, Maja Michalska og Embla Kristínardóttir skoruðu fjögur stig hvor.

Í liði Breiðabliks var Jessica Kay Loerna atkvæðamest með 28 stig, sex fráköst og fjórar stoðsendingar, Birgit Ósk Snorradóttir og Iva Georgieva skoruðu tíu stig hvor, Isabella Ósk Sigurðardóttir skoraði átta stig, Þórdís Jóna Kristjánsdóttir skoraði sjö stig, Telma Lind Ásgeirsdóttir skoraði fimm stig og Fanney Lind G. Thomas skoraði þrjú stig.

Skallagrímur situr nú í fjórða sæti deildarinnar með sex stig eins og Haukar. Næst leikur liðið við Fjölni og fer leikurinn fram í Borgarnesi á laugardaginn, 23. janúar, kl. 16:30.

Líkar þetta

Fleiri fréttir