Traore Mustapha gekk til liðs við Skallagrím á síðasta ári en hann var atkvæðamestur í liði Skallagríms í leiknum gegn Hamri. Ljósm. úr safni/ monmouthhawks.com.

Tap hjá Skallagrími eftir jafnan leik

Skallagrímur tók á móti Hamri frá Hveragerði í 1. deild karla í körfuknattleik á föstudaginn í Borgarnesi. Leikurinn, sem var nokkuð jafn, endaði með sex stiga sigri gestanna, 93-87. Fyrsti leihluti fór rólega af stað en á sjöundu mínútu náðu Skallagrímsmenn aðeins forskoti og voru þeir með sjö stiga forystu í lok leikhlutans, 26-19. Snemma í öðrum leikhluta náði Hamar að gera forystu Skallagríms að engu og var lítill munur á liðunum það sem eftir lifði fyrri hálfleiks. Skallagrímsmenn fór inn í þriðja leikhluta með tveggja stiga forystu sem þeir náðu að auka jafnt og þétt upp í ellefu stig. Þá tóku Hamarsmenn heldur betur við sér og gáfu allt í leikinn. Snemma á fjórða leikhluta tóku gestirnir fram úr og höfðu að lokum sigur. Skallagrímur situr nú í fjórða sæti deildarinnar eftir tvo leiki.

Hjá Skallagrími var Mustapha Traore atkvæðamestur með 21 stig og ellefu fráköst. Næstur var Nebojsa Knezevic með 18 stig og níu stoðsendingar. Hjalti Ásberg Þorleifsson var með 16 stig en aðrir höfðu minna. Í liði Hamars var Jose Medina Aldana atkvæðamestur með 29 stig og 15 stoðsendingar, Ruud Lutterman var með 24 stig og sjö fráköst og Pálmi Geir Jónsson átti 23 stig.

Næsti leikur Skallagríms verður gegn Hrunamönnum á Flúðum á föstudaginn, 22. janúar, kl. 19:15.

Líkar þetta

Fleiri fréttir