Skallagrímur hafði betur í Vesturlandsslagnum

Skallagrímur hafði betur gegn Snæfelli í hörkuspennandi leik í Domino‘s deild kvenna í gær. Liðin mættust í Borgarnesi og strax var ljóst að bæði ætluðu þau sér sigur. Fysti leikhluti var hnífjafn og lauk í stöðunni 18-18. Í öðrum leikhluta byrjaði Skallagrímur að skilja sig frá Snæfelli og leiddi með 14 stigum í hálfleik, 46-32. Forskot Skallagríms hélst nokkuð jafnt í þriðja leikhluta sem lauk í stöðunni 66-55. Snæfell gafst aldrei upp og náði aðeins að ógna forskoti Skallagrímskvenna í fjórða leikhluta og minnkuðu muninn niður í eitt stig um miðjan leikhlutann. Það dugði þó ekki til og Skallagrímur sigraði með fimm stigum, 85-80.

Í liði Skallagríms var Keira Robinson atkvæðamest með 30 stig, Sanja Orozovic var þar næst með 26, Maja Michalska skoraði tíu, Sigrún Sjöfn Ámundadóttir átta, Nikita Telesford sjö stig og Embla Kristínardóttir fjögur.

Í liði Snæfells var Haiden Denise Palmer atkvæðamest með 29 stig, Kamilé Berenyté 18, Anna Soffía Lárusdóttir skoraði 14, Tinna Guðrún Alexandersdóttir níu, Rebekka Rán Karlsdóttir átti, Emese Vida var með tvö og Vaka Þorsteinsdóttir eitt.

Næst mætir Skallagrímur gegn Breiðabliki í Smáranum í Kópavogi á miðvikudaginn, 20. janúar, kl. 18:15. Snæfell á einnig leik á miðvikudaginn þegar liðið mætir Val á Hlíðarenda.

Líkar þetta

Fleiri fréttir