Barátta í leik Vals og Skallagríms. Ljósm. karfan.is

Skallagrímskonur töpuðu stórt

Skallagrímskonur þurftu að sætta sig við tap í Domino‘s deild kvenna í gær þegar þær heimsóttu Valskonur í fyrsta leik liðanna eftir að keppni í körfuknattleik hófst að nýju eftir samkomubann. Skallagrímskonur náðu að hanga í Valskonunum í byrjun leiks en strax í lok fyrsta leikhluta slitu Valskonur sig frá þeim og sigruðu að lokum örugglega; 91-58.

Skallagrímur kom aðeins ákveðnari inn í leikinn og náðu stelpurnar átta stiga forystu þegar fimm mínútur voru liðnar af leiknum, 15-7. Eftir það fór að halla undan fæti hjá gestunum og fyrsta leikhluta lauk með sex stiga forystu Vals, 26-20. Skallagrímur náði lítið að ógna forystu Valskvenna í öðrum leikhluta og 11 stig skildu liðin af í hálfleik, 44-33. Heimakonur héldur uppteknum hætti í þriðja leikhluta og voru 21 stigi yfir fyrir lokaleikhlutann. Þá var þetta orðið tiltölulega auðvelt fyrir þær og unnu að lokum með 33 stigum, 91 gegn 58.

Sanja Orozovic var stigahæst í liði Skallagríms með 15 stig og sjö fráköst. Keira Robinson skoraði 14 stig og átti fimm fráköst og fimm stoðsendingar. Embla Kristínardóttir skoraði níu stig og átti fimm fráköst, Sigrún Sjöfn Ámundadóttir skoraði sex stig, Nikita Telesford skoraði sex stig og átti sjö fráköst, Maja Michalska var með fimm stig og tíu fráköst, Arna Hrönn Ámundadóttir skoraði tvö stig og Gunnhildur Lind Hansdóttir eitt stig og átti að auki fimm fráköst.

Í liði Vals var Kiana Johnson atkvæðamest með 19 stig og átta stoðsendingar. Hallveig Jónsdóttir skoraði 15 stig, Ásta Júlía Grímsdóttir átti 14 stig og níu fráköst, Hildur Björg Kjartansdóttir skoraði 13 stig og tók 8 fráköst, Eydís Eva Þórarinsdóttir skoraði níu stig, Helena Sverrisdóttir sjö stig og tók átta fráköst auk þess sem hún átti sex stoðsendingar. Dagbjört Dögg Karlsdóttir skoraði sjö stig og Guðbjörg Sverrisdóttir líka, auk þess sem hún náði fimm fráköstum.

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Gleðilegt sumar!

Skessuhorn óskar lesendum sínum, ungum sem gömlum, til sjávar og sveita, gleðilegs sumars.