Heiður Karlsdóttir er íþróttamaður Reykdæla 2020. Ljósm. UMFR

Heiður er íþróttamaður Umf. Reykdæla

Á mánudagskvöldið fór fram verðlaunaafhending Ungmennafélags Reykdæla til efnilegs íþróttafólks. Veitt voru verðlaun fyrir framfarir í körfubolta og sundi auk þess sem íþróttamður Reykdæla 2020 hlaut verðlaun. Í ljósi aðstæðna var verðlaunaafhendingin með óhefðbundnu sniði, bankað var heima hjá ungu köppunum og þeim komið á óvart með verðlaunin. Íþróttamaður Reykdæla árið 2020 er Heiður Karlsdóttir körfuknattleikskona. Í umsögn um Heiði er farið yfir feril hennar og árangur í íþróttum. Þar kemur fram að Heiður hafi byrjað að æfa handknattleik hjá Fylki 6-7 ára gömul auk þess sem hún stundaði hestaíþróttir. Þegar hún flutti í Borgarfjörðinn byrjaði hún að æfa sund og körfuknattleik. Hún hefur nú alfarið snúið sér að körfunni. Hún spilaði með 9. flokki Skallagríms keppnistímabilið 2019-2020 auk þess sem hún æfði með meistaraflokki kvenna hjá Skallagrími, þar sem hún fékk aðeins að kynnast því hvernig er að spila í efstu deild. „Heiður varð jafnframt bikarmeistari með meistaraflokki Skallagríms árið 2020,“ segir í færslu á Facebook síðu UMFR. Þá hefur Heiður verið valin í 26 manna úrtakshóp fyrir U-16 landslið í körfuknattleik. „Heiður er frábær íþróttamaður sem hefur mikinn metnað í að bæta eigin árangur og tekur allri tilsögn mjög vel. Hún er mikil keppnismanneskja og er mjög hvetjandi bæði á æfingum og í keppni. Hún kemur mjög vel fram og er frábær fyrirmynd fyrir yngri iðkendur,“ segir í umsögn UMFR um Heiði.

Í 2. sæti í valinu á íþróttamanni Reykdæla var Lisbeth Inga Kristófersdóttir körfuknattleikskona. „Lisbeth er frábær íþróttamaður sem leggur sig alla fram til þess að bæta árangur sinn og hún er gríðarlega dugleg að taka auka æfingar. Hún kemur einstaklega vel fram innan vallar sem utan, er ávallt kurteis og hvetjandi fyrir liðsfélaga sína. Þrátt fyrir að Lisbeth hafi glímt við þrálát meiðsli á árinu heldur hún ótrauð áfram og mætir á allar æfingar með jákvæðnina að leiðarljósi. Hún er frábær fyrirmynd fyrir yngri iðkendur,“ segir í umsögn UMFR.

Í þriðja sæti í valinu á íþróttamanni Reykdæla var Skírnir Ingi Hermannsson körfuknattleiksmaður. „Skírnir er hörkuduglegur körfuboltamaður og það sést að það er ástríða fyrir körfubolta hjá honum. Hann mætir á æfingar hvort sem það er morgunæfingar kl. 7 fyrir skóla eða í lok dags. Hann er alltaf kurteis á æfingum, fylgir fyrirmælum og leggur sig fram. Hann er góð fyrirmynd fyrir yngri iðkendur, kurteis innan sem utan vallar. Ef hann heldur áfram að leggja sig fram og setja sér markmið eru honum allar leiðir opnar,“ segir í umsögn UMFR.

Líkar þetta

Fleiri fréttir