Glæsilegur sigur hjá íslensku stelpunum

Íslenska kvennalandsliðið í knattspyrnu sigraði Slóvakíu 3-1 í gær þegar liðin mættust ytra í undankeppni EM 2022. Var þetta næstsíðasti leikur Íslands í undankeppninni en stelpurnar mæta Ungverjalandi í síðasta leik sínum á þriðjudaginn.

Leikurinn byrjaði ekki vel fyrir Ísland en á 25. mínútu kom Mária Mikolajová Slóvakíu yfir og lítið gekk hjá íslensku stelpunum í fyrri hálfleik. Þær komu þó öllu grimmari til leiks í síðari hálfleik en fljótlega eftir að leikurinn hófst eftir hlé varð allt rafmagnslaust á vellinum og þurfti því að fresta leiknum um nokkrar mínútur og liðin fóru til búningsherbergja á meðan. Þar var Jón Þór Hauksson, þjálfari liðsins, að stappa stálinu í stelpurnar og lemur krepptum hnefa í nuddbekk og brýtur við það bein í litla fingri. Í samtali við fotbolti.net segir Jón Þór að um sé að ræða smávægilegt brot og að hann verði klár fyrir leikinn á þriðjudaginn. Þá segir hann þetta ekki hafa gerst vegna reiði heldur hafi þetta verið eldmóður.

Stoppið vegna rafmagnsleysisins sló íslensku stelpurnar ekki út af laginu og þær héldu áfram að vera grimmar á vellinum þegar leikurinn hófst á ný. Það var svo á 61. mínútu sem jöfnunarmark Íslands kom þegar Agla María Albertsdóttir átti glæsilega sendingu á Sveindísi Jane Jónsdóttur sem kom boltanum út í teiginn þar sem Berglind Björg Þorvaldsdóttir var mætt og skoraði örugglega. Á 67. mínútu kom Sara Björk Gunnarsdóttir Íslandi yfir með marki af vítapunktinum. Hún fékk þar tvær tilraunir en sú fyrri var varin en í þeirri seinni skoraði hún af miklu öryggi. Á 77. mínútu var Elín Metta Jensen tekin niður í teignum og aftur dæmd vítaspyrna. Sara Björk tryggði þar Íslandi sigur með öruggu marki.

Stelpurnar sitja nú í öðru sæti riðilsins, á eftir Svíþjóð, og er sæti í lokakeppni EM í Englandi í seilingarfjarlægð. Þær hafa með sigrinum tryggt sér sæti um umspili en geta með sigri á Ungverjalandi á þriðjudaginn komist hjá umspili en þau þrjú lið sem eru með bestan árangur í öðru sæti í riðlakeppninni fara beina leið í lokakeppnina. Hin sex liðin í öðru sæti í sínum riðlum spila um þrjú síðustu sætin í lokakeppninni.

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Gleðilegt sumar!

Skessuhorn óskar lesendum sínum, ungum sem gömlum, til sjávar og sveita, gleðilegs sumars.