Samsett mynd/ kfia.

Nýir leikmenn í herbúðir ÍA

Knattspyrnufélag ÍA hefur samið við fjóra nýja leikmenn fyrir komandi tímabil og endurnýjað aðra.

Árni Salvar Heimisson er fæddur árið 2003 og hefur hann samið við félagið til lok árs 2022. Hann hefur spilað einn leik í Pepsi Max deildinni og kemur hann inn í liðið í gegnum uppeldisstefnu félagsins. Júlíus Emil Baldursson er fæddur 2002 og kemur einnig í gegnum uppeldisstefnu félagsins. Hann gerði samning til lok árs 2023. Þá hefur félagið samið við Loga Mar Hjaltested sem er efnilegur markvörður. Hann er fæddur árið 2005 og kemur í gegnum uppeldisstefnu félagsins og samdi við ÍA til loka árs 2023. Loks hefur Lilja Björg Ólafsdóttir gert sinn fyrsta samning við Knattspyrnufélag ÍA en hún kemur í gegnum yngri flokka starf félagsins. Lilja Björg er fædd 2003 og hefur spilað sex leiki fyrir meistaraflokk kvenna í deild og bikar.

ÍA hefur einnig endurnýjað samning við Árna Marinó Einarsson markvörð sem gekk til liðs við félagið 2018. Árni hefur bæði leikið með 2. flokki karla og meistaraflokki Skallagríms. Steinar Þorsteinsson hefur skrifað undir nýjan þriggja ára samning við ÍA en hann hefur verið einn af lykilmönnum félagsins undanfarin ár. Ísak Örn Elvarsson hefur einnig endurnýjað sinn samning við félagið til loka árs 2022, en hann er ungur og efnilegur leikmaður.

Loks hefur Bryndís Rún Þórólfsdóttir fyrirliði framlengt samning sinn við ÍA til næstu tveggja ára. Bryndís hefur spilað 118 leiki í deild og bikar og skorað níu mörk.

Líkar þetta

Fleiri fréttir