Taka þátt í undankeppni EM án viðunandi undirbúnings

Kvennalandslið Íslands í körfubolta heldur til Heraklion í Grikklandi á sunnudaginn og keppir í næstu viku tvo leiki í undankeppni EM. Liðið tekur þátt í mótinu, en þrátt fyrir mótmæli KKÍ undanfarnar vikur og fleiri þjóða undanfarna daga, ákvað FIBA að halda sig við að láta leikina fara fram. Hér á landi hefur verið æfingabann í íþróttum og því er engan veginn hægt að segja að undirbúningur liðsins hafi verið viðunandi. Engu að síður og þrátt fyrir mjög strangar reglur í Grikkland sem tóku gildi í dag leyfa yfirvöld að þessir leikir fari fram á vegum FIBA.

„Leikirnir tveir hjá stelpunnum áttu að vera heima og að heiman í þessum nóvember glugga. Farið verður eftir mjög ströngum reglum innan bubblunnar með sóttvarnir. Leikmenn og fylgdarlið hafa þegar farið í Covid prufur hér heima og eiga eftir að fara í prufu áður en farið verður á sunnudaginn. Ennþá hefur hópurinn greinst neikvæður í þessum prufum undanfarna daga,“ segir í tilkynningu frá KKÍ. „Eins og allir vita er æfingabann hér landi sem gerir allan undirbúning erfiðari, en biðlað var til yfirvalda um undanþágu fyrir 11 leikmenn hér á landi til einstaklingsæfinga innandyra. Heilbrigðisráðuneytið veitti undanþágu til KKÍ í gærmorgun um að leikmennirnir mættu mæta á einstaklingsæfingar án þjálfara og var fyrsti æfingardagur í gær. KKÍ fékk aðstöðu til æfinga í Smáranum í Kópavogi og þakkar KKÍ Breiðabliki fyrir veitta aðstoð svo þessar æfingar gætu farið fram. Undirbúningur fyrri þessa leiki er því miður langt frá því að vera viðunandi og því enn meiri vonbrigði að FIBA skuli ekki fresta þessum leikjum.“

Leikdagar stelpnanna verða fimmtudaginn 12. nóvember og laugardaginn 14. nóvember, báðir leikirnir kl. 15.00 að íslenskum tíma og í beinni útsendingu á RÚV. Fyrri leikurinn er gegn Slóveníu og sá síðari gegn Búlgaríu.

FIBA gaf út í dag styrkleikastöðu þjóðanna fyrir komandi leiki og er ÍSLAND númer 31 af 33 þjóðum. Alls taka 40 þjóðir þáttt í Evrópukeppni kvenna á vegum FIBA en sjö af þessum 40 eru í svokallaðri smáþjóðakeppni og því ekki undankeppni EM.

Fulltrúar Vesturlands í landsliðshópnum eru Sigrún Sjöfn Ámundadóttir úr Skallagrími, sem jafnframt er leikjahæst íslensku stúlknanna, og fararstjóri er Hannes S. Jónsson, formaður KKÍ.

Líkar þetta

Fleiri fréttir