Loka ber öllum golfvöllum landsins

Tilkynnt var á föstudaginn um hertar aðgerðir í sóttvörnum til 17. nóvember. Í þeim felst meðal annars að allar æfingar og keppni í íþróttum eru bannaðar. Viðbragðshópur Golfsambands Íslands óskaði eftir nánari útskýringum á því hvort 6. mgr. 5. gr. reglugerðarinnar eigi við um golfiðkun. Að mati viðbragðshópsins þótti ekki nægur samhljómur á milli þess að segja annars vegar að íþróttir (þar með talið æfingar og keppni) utandyra án snertingar séu óheimilar og hins vegar leyfa; „einstaklingsbundnar æfingar án snertingar, svo sem útihlaup eða sambærilega hreyfingu“. Í svari Þórólfs Guðnasonar sóttvarnalæknis og Víðis Reynissonar yfirlögregluþjóns almannavarnarsviðs ríkislögreglustjóra til GSÍ er afdráttarlaust tekið á málinu, en þeir segja að golf falli undir það ákvæði að allar æfingar og keppnir í íþróttum séu nú óheimilar. Samkvæmt þessu ber að loka golfvöllum landsins.

Líkar þetta

Fleiri fréttir