Keppni hætt í fótboltanum

Stjórn Knattspyrnusambands Íslands samþykkti á fundi sínum á föstudaginn að hætta keppni í Íslandsmótum og bikarkeppni KSÍ 2020. Sú ákvörðun er í samræmi við 5. grein í reglugerð um viðmiðanir og sértækar ráðstafanir vegna heimsfaraldurs kórónaveiru sem gefin var út í júlí síðastliðnum. Ákvörðunin tekur strax gildi. Íslenska deildin er sú eina í Evrópu sem hefur ákveðið að hætta keppni vegna Covid-19 faraldursins. KSÍ hefur fengið töluverða gagnrýni fyrir að enda tímabilið snemma og eru ýmis félög í efstu deildum sem íhuga að kæra ákvörðunina.

Fjórar umferðir voru eftir í efstu deild karla og tvær í efstu deild kvenna. Samkvæmt þessu er Valur Íslandsmeistari karla og Breiðablik er Íslandsmeistari kvenna. Valur, FH, Breiðablik og Stjarnan fara í Evrópukeppni í karlaflokki en KR situr eftir. Breiðablik og Valur fara í Evrópukeppni í kvennaflokki en Ísland fær tvö sæti þar á næsta ári. Fjölnir og Grótta falla úr Pepsi Max-deild karla en FH og KR úr Pepsi Max-deild kvenna.
Keflavík og Leiknir R. fara upp úr Lengjudeild karla en Fram situr eftir á markatölu. Magni og Leiknir F. fara niður. Þróttur R. endaði með einu marki betra en Magni í markatölu.
Kórdrengir og Selfoss fara upp í Lengjudeildina en Víðir Garði og Dalvík/Reynir falla niður í 3. deild. KV og Reynir Sandgerði fara upp úr 3. deildinni en Vængir Júpíters og Álftanes falla niður í 4. deild. KFS og ÍH fara upp úr 4. deildinni, sem var lokið.
Keflavík og Tindastóll fara upp í Pepsi Max-deild kvenna en Fjölnir og Völsungur falla niður í 2. deild. HK og Grindavík fara upp í Lengjudeild kvenna.

Íslandsmót

Í 5. grein reglugerðarinnar kemur fram að hafi að lágmarki 2/3 hlutar heildarleikja í efstu deild, 1. deild og 2. deild verið leiknir samkvæmt mótaskrá ræður meðalfjöldi stiga hvers liðs fyrir sig í hverjum leik sem það hefur lokið á þeim degi þegar móti er aflýst, endanlegri niðurröðun. Telst Íslandsmótinu þar með lokið. Skulu þá Íslandsmeistarar krýndir og lið færast á milli deilda með sama hætti og ef allir leikir í öllum deildum á Íslandsmóti hefðu verið leiknir. Ekkert lið verður krýnt Mjólkurbikarmeistari 2020.

Þátttaka í Evrópukeppnum

Í 6. grein reglugerðarinnar er fjallað um þátttöku í Evrópukeppnum. Þar kemur fram að þátttaka liða í Evrópukeppni ársins 2021 skuli ráðast af röð þeirra í efstu deild Íslandsmótsins. Jafnframt kemur fram að náist ekki að ljúka keppni í bikarkeppni karla, en Íslandsmóti lýkur samkvæmt grein 5.1.1. leikur liðið í 4. sæti efstu deildar Íslandsmóts í Evrópukeppni.

Líkar þetta

Fleiri fréttir