

Fjórhjólahópurinn Lísurnar í sinni fyrstu ferð
Nokkrar röggsamar dömur í Grundarfirði hafa tekið sig saman og stofnað fjórhjólahóp. Ekki er komið eiginlegt nafn á hópinn en nafninu Lísurnar hefur verið fleygt fram og er það væntanlega til heiðurs eins af stofnendum hópsins, en Lísa Ásgeirsdóttir á stóran þátt í þessu.
Alls fóru sjö konur á sex fjórhjólum um torfæra vegslóða í nágrenni Grundarfjarðar síðasta laugardag og skemmtu þær sér vel. Hópurinn er eingöngu skipaður kvenfólki og er stefnan að það verði áfram svoleiðis. Vonir standa til að það fjölgi í hópnum enda er þetta einstaklega skemmtilegt sport og gaman að skoða nágrennið á þennan hátt.