Stefán Teitur tekur aukaspyrnu í leik með ÍA. Ljósm. úr safni/gbh.

Stefán og Tryggvi á förum frá ÍA

Knattspyrnumennirnir Stefán Teitur Þórðarson og Tryggvi Hrafn Haraldsson eru á leið í atvinnumennsku og eru því á förum frá ÍA. Stefán hefur samið við Silkeborg IF, sem leikur í næstefstu deild í Danmörku en Tryggvi er á leið til norska liðsins Lilleström SK, sem sömuleiðis leikur í næstefstu deild þar í landi. Hvorki Tryggvi né Stefán léku með ÍA gegn FH á sunnudaginn.

Stefán er fæddur árið 1998 og á að baki 100 leiki með meistaraflokki ÍA, auk tveggja A-landsleikja og þrettán fyrir U21 árs landsliðið. Hann hefur leikið burðarhlutverk í liði ÍA í sumar og skorað átta mörk í 17 leikjum.

Tryggvi er 24 ára gamall og samdi við Lilleström út árið. Hann hefur sömuleiðis verið einn af mikilvægustu leikmönnum Skagamanna í sumar og hefur skorað tólf mörk í 17 leikjum. Er þetta í annað sinn sem Tryggvi heldur utan, en hann lék með Halmstad í Svíþjóð 2017-2018, áður en hann sneri aftur til ÍA árið 2019.

Tryggvi Hrafn Haraldsson snýr á varnarmann í leik í sumar. Ljósm. ghb.

Líkar þetta

Fleiri fréttir