Ljósm. úr safni/ gbh.

Tap gegn toppliðinu

Skagakonur máttu játa sig sigraðar gegn toppliði Tindastóls, 2-4, þegar liðin mættust í 1. deild kvenna í knattspyrnu. Leikið var í Akraneshöllinni á föstudagskvöld.

Gestirnir komust yfir strax á 3. mínútu leiksins þegar Jaclyn Poucel Árnason varð fyrir því óláni að skora sjálfsmark. Hún setti fótinn í fyrirgjöf frá hægri en var óheppin því boltinn hafnaði í horninu fjær. Tindastóll komst í 2-0 á 29. mínútu eftir snarpa sókn. Aldís María Jóhannsdóttir fékk langan bolta inn fyrir vörnina, fór framhjá varnarmanni og renndi boltanum framhjá Anítu Ólafsdóttur markverði á Murielle Tiernan sem lagði boltann auðveldlega í autt markið.

Skömmu síðar minnkuðu Skagakonur metin. Boltanum var lyft inn á vítateiginn frá vinstri. Gestirnir voru í basli með að koma honum í burtu og Erla Karitas Jóhannesdóttir nýtti sér það, þegar hún skoraði auðveldlega af stuttu færi og minnkaði muninn í 1-2. Var þetta fyrsta markið sem Tindastóll fékk á sig í meira en mánuð, eða síðan 23. ágúst.

Fleiri mörk litu ekki dagsins ljós í fyrri hálfleik og raunar þurfti áhorfendur að bíða þangað til seint í leiknum eftir að sjá boltann næst í netinu. Það var ekki fyrr en á 78. mínútu þegar Murielle skoraði annað mark sitt og þriðja mark Tindastóls. Hún fékk boltann hægra megin í vítateignum, skaut að marki og Aníta missti boltann undir sig á nærstönginni. Þremur mínútum síðar fullkomanði Murielle þrennuna þegar hún slapp ein í gegnum vörnina eftir langa sendingu fram og skoraði með skoti hægra megin úr vítateignum.

Skagakonur minnkuðu muninn á lokamínútu leiksins þegar Jaclyn skoraði með skalla eftir hornspyrnu frá Klöru Kristvinsdóttur. Lokatölur voru því 2-4.

Skagakonur sitja í 8. sæti deildarinnar með 15 stig, þremur stigum minna en Víkingur R. en með átta stiga forskot á Fjölni í fallsætinu þegar einn leikur er eftir í mótinu. Lokaleikur Skagakvenna á tímabilinu er útileikur gegn Aftureldingu á föstudaginn, 9. október næstkomandi.

Líkar þetta

Fleiri fréttir