Ljósm. úr safni/ Víkingur Ó.

Ólafsvíkingar öruggir

Sæti Víkings Ó. í 1. deild karla í knattspyrnu er tryggt, þrátt fyrir 1-3 tap gegn Leikni R. þegar liðin mættust í Ólafsvík á laugardag. Úrslit annarra leikja voru Ólafsvíkingum hagfelld og liðin fyrir neðan geta ekki náð þeim þrátt fyrir að tveir leikir séu eftir í mótinu.

Leikurinn gegn Leikni fór nokkuð fjörlega af stað og bæði lið virtust vera mætt til að sækja. Ólafsvíkingar fengu dauðafæri á 17. mínútu þegar Gonzalo Zamorano skallaði rétt yfir markið eftir sendingu frá Harley Willard. Stuttu síðar urðu Ólafsvíkingar fyrir áfalli þegar Gonzalo fór meiddur af velli.

Gestirnir komust betur inn í leikinn eftir því sem leið á fyrri hálfleikinn og komust yfir á lokamínútu hans þegar Vuk Oskar Dimitrijevic tók hornspyrnu sem sveif alla leið í netið. Staðan því 0-1 í hléinu.

Ólafsvíkingar voru öflugri framan af síðari hálfleik en náðu ekki að skapa sér nein alvöru marktækifæri. Þvert á móti voru það gestirnir sem skoruðu næst, þegar Sævar Atli Magnússon fékk boltann á fjærstöng og kom boltanum í netið. Sex mínútum síðar skoraði Vuk sitt annað mark í leiknum með góðu skoti og kom Leikni í 0-3.

Ólafsvíkingar minnkuðu muninn á 81. mínútu þegar Emmanuel Eli Keke skoraði með föstum skalla eftir sendingu frá Harley. Eftir það datt botninn úr leiknum og fátt markvert gerðist. Það voru því Leiknismenn sem fóru með sigur af hólmi, 1-3.

Sem fyrr segir er sæti Víkings Ó. í deildinni tryggt þrátt fyrir tap. Liðið hefur 19 stig í 9. sæti deildarinnar, sjö stigum meira en liðin þrjú fyrir neðan þegar tveir leikir eru eftir í mótinu. Næst leika Ólafsvíkingar á laugardaginn, 10. október, þegar þeir mæta Þór Ak. á Ólafsvíkurvelli.

Líkar þetta

Fleiri fréttir