Ljósm. úr safni/ gbh.

Fengu skell á heimavelli

Skagamenn lágu gegn FH þegar liðin mættust í Pepsi Max deild karla í knattspyrnu í gær. Leikið var á Akranesvelli og skoruðu FH-ingar fjögur mörk gegn engu.

Jafnræði var með liðunum í upphafi leiks en eftir því sem líða tók á fyrri hálfleikinn sóttu FH-ingar í sig veðrið. Þeir komust yfir á 34. mínútu þegar Pétur Viðarsson fékk boltann úti hægra megin, renndi honum fyrir markið á Steven Lennon sem tók á móti honum og lagði í fjærhornið.

Skagamenn mættu ákveðnir til leiks í síðari hálfleik, færðu liðið framar á völlinn og áttu nokkrar prýðilegar sóknir. Þeim tókst hins vegar ekki að skapa sér nein alvöru marktækifæri. FH-ingar voru ekkert að flýta sér. Þeir áttu ekki marktilraun í síðari hálfleik fyrr en á 76. mínútu og þá komust þeir í 0-2, þegar Jónatan Ingi Jónsson skallaði boltann í netið eftir sendingu Baldurs Loga Guðlaugssonar. Aðeins tveimur mínútum síðar fengu Hafnfirðingar vítaspyrnu eftir að boltinn hafði farið í hönd varnarmanns ÍA. Steven Lennon fór á punktinn og kom FH þremur mörkum yfir. Það var síðan á lokamínútu leiksins sem Skagamenn gleymdu sér í vörninni, Baldur Logi slapp inn fyrir og renndi boltanum á Lennon sem fullkomnaði þrennu sína og tryggði FH-ingum 0-4 sigur.

Skagamenn sigla lygnan sjó rétt fyrir neðan miðja deild. Þeir sitja í 8. sæti með 21 stig, jafn mörg og KA í sætinu fyrir ofan en stigi meira en HK. Næsti leikur ÍA er útileikur gegn Stjörnunni fimmtudaginn 15. október næstkomandi.

Líkar þetta

Fleiri fréttir