Ljósm. úr safni/ Skallagrímur.

Borgnesingar byrjuðu með látum

Skallagrímur lék fyrsta leik vetrarins í 1. deild karla í körfuknattleik þegar liðið mætti Fjölni á útivelli síðastliðið föstudagskvöld. Borgnesingar byrjuðu móti með látum, því þeir fóru með 19 stiga sigur af hólmi, 91-110.

Jafnræði var með liðunum í fyrri hálfleik. Fjölnismenn höfðu undirtökin í fyrsta leikhluta og leiddu með tveimur stigum að honum loknum, 21-19. Þeir höfðu örfárra stiga forystu lengst af öðrum fjórðungi einnig, en þegar nær dró hálfleiknum náðu Borgnesingar að komast yfir og Skallagrímur leiddi í hléinu, 37-40.

Leikurinn var í járnum fyrstu fimm mínútur síðari hálfleiks, en þá settu Borgnesingar í fluggírinn. Þeir skoruðu 20 stig gegn átta seinni hluta þriðja leikhluta og fóru með ellefu stiga forskot inn í lokafjórðunginn. Þar héldu þeir uppteknum hætti, komust mest 29 stigum yfir seint í leiknum áður en heimamenn minnkuðu muninn undir lokin. Leiknum lauk með 19 stiga sigri Skallagríms, 91-110.

Reynsluboltinn Nebosja Knezevic fór fyrir liði Skallagríms. Hann skoraði 27 stig og gaf átta stoðsendingar. Mustapha Traore skoraði 21 stig, tók sex fráköst, gaf fimm stoðsendingar og stal fjórum boltum. Kristján Örn Ómarsson og Hjalti Ásberg Þorleifsson skoruðu 14 stig hvor, Marinó Þór Pálmason var með 13 stig, Kristófer Gíslason ellefu stig, Davíð Guðmundsson sex stig og Almar Örn Björnsson og Ólafur Þorri Sigurjósson skoruðu tvö stig hvor.

Jóhannes Dolven var atkvæðamestur í liði Fjölnis með 23 stig og 15 fráköst. Matthew Carr jr. skoraði 23 stig einnig en aðrir leikmenn Fjölnis náðu ekki tveggja stafa tölu á stigatöflunni.

Skallagrímur trónir á toppi deildarinnar með tvö stig, eins og önnur lið sem sigruðu sína leiki í fyrstu umferð. Næsti leikur Borgnesinga er gegn Hamri, föstudaginn 16. október næstkomandi. Er það jafnframt fyrsti heimaleikur Skallagríms í vetur.

Líkar þetta

Fleiri fréttir