Ljósm. úr safni/ Víkingur Ó.

Öll mörkin skoruð fyrsta korterið

Ólafsvíkingar máttu játa sig sigraða gegn Grindavík, 3-0, þegar liðin mættust í 1. deild karla í knattspyrnu í gærkvöldi. Leikið var suður með sjó og leikurinn byrjaði með miklum látum. því öll mörk leiksins litu dagsins ljós fyrsta korterið. Strax á upphafsmínútunni barst boltinn á Odd Inga Bjarnason sem var ekkert að tvínóna við hlutina heldur skilaði honum í þverslána og inn, þegar ekki voru nema kannski 50 sekúndur síðan leikurinn hófst.

Liðsmenn Víkings Ó. voru öflugri eftir að Grindvíkingar skoruðu. Gonzalo Zamorano komst í dauðafæri á 7. mínútu leiksins þegar hann slapp einn í gegn eftir frábæra stungusendingu, en skot hans var varið.

Fimm mínútum síðar fengu heimamenn hornspyrnu. Aron Jóhannsson tók spyrnuna sem rataði beint á kollinn á Sigurði Bjarti Hallssyni sem skallaði boltann í netið og kom Gríndavík í 2-0. Ólafsvíkingar virtust slegnir og aðeins fimm mínútum síðar skoruðu heimamenn þriðja mark leiksins. Oddur Ingi lék inn á völlinn frá hægri, fór framhjá þremur varnarmönnum og lagði boltann á Guðmund Magnússon sem kláraði færið sitt vel.

Leikurinn róaðist töluvert eftir að Grindvíkingar bættu þriðja markinu við og hvorugt liðið náði að skapa sér ákjósanleg marktækifæri það sem eftir lifði fyrri hálfleiksins.

Síðari hálfleikurinn fór rólega af stað, samanborið við þann fyrri. Ólafsvíkingar voru meira með boltann og voru nálægt því að minnka muninn eftir klukkustundar leik, þegar Indriði Áki Þorláksson skallaði rétt yfir eftir hornspyrnu.

Skömmu síðar var Oddur Ingi rekinn af velli með sitt annað gula spjald og þurftu heimamenn því að leika manni færri síðustu 25 mínúturnar eða svo. Ólafsvíkingar náðu hins vegar ekki að gera sér mat úr því að vera manni fleiri á vellinum, því það voru Grindvíkingar sem virkuðu líklegri til að skora. Guðmundur Magnússon var nálægt því að bæta fjórða markinu við þegar hann átti skot rétt framhjá á 72. mínútu. Ólafsvíkingar sóttu nokkuð stíft síðustu tíu mínúturnar en höfðu ekki erindi sem erfiði og leiknum lauk því með 3-0 sigri heimamanna.

Eftir 19 umferðir situr Víkingur Ó. í 9. sæti deildarinnar með 19 stig, sjö stiga forskot á liðin þrjú fyrir neðan þegar þrír leikir eru eftir í mótinu. Næsti leikur Víkings Ó. er gegn sterku liði Leiknis R. Liðin mætast á Ólafsvíkurvelli á laugardaginn, 3. október.

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Gleðilegt sumar!

Skessuhorn óskar lesendum sínum, ungum sem gömlum, til sjávar og sveita, gleðilegs sumars.