Skagakonur tryggðu sæti siitt í deildinni með sigri á Fjölni. Ljósm. úr safni/ gbh.

Skagakonur öruggar

Skagakonur tryggðu áframhaldandi veru sína í 1. deild kvenna í knattspyrnu þegar þær lögðu Fjölni á heimavelli í gærkvöldi, 2-0. Fyrir leikinn sat ÍA í 8. sæti deildarinnar með fimm stiga forskot á Fjölni í efra fallsætinu. Því var um sannkallaðan botnslag að ræða. EFti rsigurinn eru Skagakonur átta stigum fyrir ofan fallið þegar tvær umferðir eru eftir og sæti þeirra í deildinni þar með tryggt.

Skagakonur voru öflugri í upphafi leiks. Þær voru mun beittari fram á við, áttu nokkrar álitlegar sóknir og fengu sæmileg marktækifæri, en engin dauðafæri. Besta færi leiksins framan af áttu hins vegar Fjölniskonur á 12. mínútu. Þá náði Aníta Ólafsdóttir, markvörður ÍA, að kasta sér fyrir hættulega fyrirgjöf á undan sóknarmanni gestanna og slá boltann út í teiginn. Ásta Sigrún Friðriksdóttir kom á ferðinni og átti skot sem Aníta varði. Ásta fékk frákastið en var ekki í jafnvægi og brenndi af fyrir opnu marki nálægt vinstra markteigshorninu.

Fyrsta mark leiksins leit dagsins ljós á 30. mínútu og þar var á ferðinni Unnur Ýr Haraldsdóttir. Sandra Ósk Alfreðsdóttir lyfti boltanum inn fyrir vörnina frá vinstri á Unni Ýr sem sem lyfti boltanum laglega yfir Dagbjörtu Ínu Guðjónsdóttur í marki Fjölnis og í netið. Virkilega snyrtileg afgreiðsla hjá Unni og Skagakonur komnar yfir.

Þannig stóðu leikar þar til seint í leiknum. Bæði lið fengu ágæt tækifæri til að koma boltanum í netið en rétt eins og í fyrri hálfleiknum voru marktilraunir Skagakvenna hættulegri. Erla Karitas Jóhannesdóttir slapp ein í gegn á 56. mínútu en Dagbjört varði frá henni í horn. Upp úr hornspyrnunni átti Erna Björt Elíasdóttir síðan þrumuskot í þverslána.

Það var síðan Jaclyn Poucel Árnason sem innsiglaði 2-0 sigur ÍA á 84. mínútu leiksins. Boltinn barst til hennar eftir hornspyrnu. Hún var yfirveguð í teignum, lagði boltann fyrir sig og skoraði með góðu skoti framhjá Dagbjörtu í markinu. Þar með var sæti ÍA í deildinni tryggt en Fjölniskonur eru á leiðinni niður.

Skagakonur eiga tvo leiki eftir í Íslandsmótinu þetta keppnistímabilið. Sá fyrri þeirra er gegn Tindastóli á laugardaginn, 3. október næstkomandi. Sá leikur fer fram á Akranesi.

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Látrabjarg er nú friðlýst

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, hefur skrifað undir plagg til friðlýsingar Látrabjargs. Viðstaddir undirskriftina voru fulltrúar Bjargtanga, félags land-... Lesa meira