Gonzalo Zamorano var á skotskótnum þegar Víkingur Ó. lagði Leikni F. Ljósm. úr safni/ af.

Mikilvægur sigur fyrir austan

Víkingur Ó. vann mikilvægan sigur á Leikni F. þegar liðin mættust í 1. deild karla í knattspyrnu á laugardaginn. Leikið var í Fjarðabyggðarhöllinni og eftir frekar rólegan fyrri hálfleik dró heldur betur til tíðinda í þeim seinni. Þegar lokaflautan höfðu Ólafsvíkingar skorað fjögur mörk gegn tveimur mörkum heimamanna. Leikmenn hvors liðs um sig voru reknir af velli, auk þess sem þjálfari Leiknis fékk rautt undir lok leiksins.

Ólafsvíkingar komu boltanum einu sinni í netið í fyrri hálfleiknum en Gonzalo Zamorano var dæmdur rangstæður og markið stóð því ekki. Áhorfendur fengu þó aldeilis að sjá mörk. Krístofer Jacobson Reyes kom Ólafsvíkingum yfir í upphafi síðari hálfleiks þegar hann skoraði með skalla. Gonzalo Zamorano kom Víkingi Ó. í 2-0 á 54. mínútu með skoti í slá og inn og Harley Willard skoraði þriðja mark Ólafsvíkinga á 65. mínútu.

Tveimur mínútum síðar var Emmanuel Eli Keke rekinn af velli með sitt annað gula spjald og liðsmenn Víkings Ó. þar með orðnir manni færri. Korteri síðar var þó aftur orðið jafnt í liðunum, því Povilas Krasnovskis, leikmanni Leiknis, var vísað af velli.

Lokamínúturnar áttu eftir að vera tíðindamiklar. Á 87. mínútu fengu heimamenn vítaspyrnu. Arkadiusz Jan Grzelak fór á punktinn og minnkaði muninn í 1-3. Á lokamínútu leiksins var Brynjar Skúlason, þjálfari Leiknis, rekinn af velli og enn áttu tvö mörk til viðbótar eftir að líta dagsins ljós. Arkadiusz minnkaði muninn í 2-3 þegar komið var fram yfir venjulegan leiktíma en Gonzalo innsiglaði 2-4 sigur Ólafsvíkinga á þriðju mínútu uppbótartímans.

Víkingur Ó. situr í 9. sæti deildarinnar með 19 stig eftir 18 leiki. Sigurinn var Ólafsvíkingum mikilvægur í botnbaráttu deildarinnar. Þegar fjórir leikir eru eftir hafa þeir sjö stiga forskot á Leikni F. og Þrótt R. í sætunum fyrir neðan, en síðarnefnda liðið situr í efra fallsætinu. Ólafsvíkingar mæta Grindvíkingum á útivelli á morgun, þriðjudaginn 29. september.

Líkar þetta

Fleiri fréttir