Tryggvi Hrafn Haraldsson skoraði bæði mörk Skagamanna í jafnteflinu gegn Víkingi R. Ljósm. gbh.

Jafnt á Akranesvelli

ÍA og Víkingur R. skildu jöfn, 2-2, þegar liðin mættust í Pepsi Max deild karla í knattpsyrnu í gærkvöldi. Leikið var á Akranesi. Skagamenn höfðu verið á fínum skriði í deildinni fyrir viðureignina og unnið tvo leiki í röð, síðast 1-3 útisigur á Fjölni á fimmtudaginn. Víkingur R. hafði hins vegar ekki unnið leik síðan þeir lögðu Skagamenn 6-2 á Víkingsvelli í júlí.

Gestirnir úr Reykjavík voru betri í fyrri hálfleik og komu sér ítrekað í álitlegar stöður, en náðu samt aldrei að skapa sér nein dauðafæri. Skagamenn lágu hins vegar til baka og beittu skyndisóknum. Besta færi fyrri hálfleiksins áttu Skagamenn, þegar Ingvar Jónsson, markvörður gestanna, kýldi hornspyrnu beint á Stefán Teit Þórðarson en hann skallaði boltann rétt yfir markið.

Það var síðan fjör í upphafi síðari hálfleiks. Á 51. mínútu sendu Skagamenn boltann inn fyrir vörn gestanna á Tryggva Hrafn Haraldsson sem slapp einn í gegn. Víkingar reyndu að hlaupa hann uppi en höfðu ekki erindi sem erfiði. Tryggvi þakkaði fyrir sig með því að lyfta boltanum yfir Ingvar í markinu og í netið.

En Skagamenn voru ekki lengi í forystu, því aðeins tveimur mínútum skoraði Ágúst Eðlvald Hlynsson glæsilegt mark þegar hann klippti boltann í netið eftir að Erlingur Agnarsson vippaði honum út í teiginn. Á 56. mínútu komust gestirnir síðan yfir. Sölvi Geir Ottesen vann skallabolta utarlega í teignum eftir hornspyrnu. Hann skallaði boltann að markinu þar sem hann rataði á Halldór Jón Sigurð Þórðarson sem tók laglegan snúning í teignum og skoraði með góðu skoti. Gestirnir þar með komnir yfir og litlu munaði að Halldór Jón Sigurður kæmi þeim í 1-3 tíu mínútum síðar þegar hann átti skot í stöngina.

En eftir að boltinn small í stönginni brunuðu Skagamenn upp völlinn. Tryggvi óð inn í vítateiginn þar sem hann var felldur og vítaspyrna dæmd. Tryggvi fór sjálfur á punktinn og skoraði af miklu öryggi. Staðan því orðin 2-2 eftir 65. mínútna leik og öll fjögur mörkin litu dagsins ljós á korterskafla. Fleiri urðu mörkin ekki, þó bæði lið hafi fengið ágæt marktækifæri það sem eftir lifði leiks. Liðin skildu því jöfn, 2-2.

Skagamenn hafa 21 stig í 7. sæti deildarinnar eftir 17 leiki. Þeir hafa tveggja stiga forskot á KA sem á leik til góða en eru þremur stigum á eftir KR, sem á tvo leiki til góða. Næsti leikur Skagamanna er gegn FH, sunnudaginn 4. október. Sá leikur fer fram á Akranesvelli.

Líkar þetta

Fleiri fréttir