Ljósm. úr safni/ gbh.

Skagamenn klifra upp töfluna

Skagamenn lyftu sér upp í 7. sæti Pepsi Max deildarinnar með 1-3 útisigri á Fjölni. þegar liðin mættust í Grafarvogi í gærkvöldi.

ÍA hefði getað skorað tvisvar fyrstu þrjár mínúturnar, fyrst eftir að Tryggvi Hrafn Haraldsson slapp einn í gegn og svo eftir mistök í vörn Fjölnis. Skagamenn þurftu reyndar ekki að bíða lengi eftir fyrsta marki leiksins, sem kom á 16. mínútu þegar Stefán Teitur Þórðarson skoraði eftir fyrirgjöf frá Gísla Laxdal Unnarssyni.

Skagamenn féllu helst til langt til baka og slökuðu fullmikið á eftir að þeir komust yfir. Fjölnir fékk heldur betur færi til að jafna í fyrri hálfleiknum og í upphafi þess síðari. Orri Þórhallsson skaut yfir af vítapunktinum úr upplögðu marktækifæri og Árni Snær Ólafsson varði glæsilega frá Hans Viktori Guðmundssyni eftir hornspyrnu. Í upphafi síðari hálfleiks skaut Orri framhjá eftir fyrirgjöf frá Jeffrey Monakana og áfram virkuðu heimamenn líklegri til að jafna en Skagamenn að bæta við marki.

ÍA tók að sækja í sig veðrið að nýju þegar nær dró leikslokum. Tryggvi kom ÍA í 2-0 á 83. mínútu með glæsilegu marki. Hann fékk boltann fyrir utan vítateig, lagði hann á hægri fótinn og þrumaði honum upp í samskeytin. Rétt fyrir leikslok minnkaði Fjölnir muninn. Guðmundur Karl Guðmundsson fékk boltann frá vinstri inni á vítateig og lagði hann í markhornið. En þegar komið var fram í uppbótartíma gerðu Skagamenn endanlega út um leikinn. Aron Kristófer skildi varnarmann, keyrði inn á vítateiginn og lagði boltann út á Tryggva sem kláraði færið snyrtilega. Lokatölur 1-3, ÍA í vil.

Skagamenn hafa 20 stig í 7. sæti deildarinnar eftir 16 leiki, stigi meira en HK í sætinu fyrir neðan en fjórum stigum minna en Stjarnan og KR, sem bæði eiga tvo leiki til góða á Skagamenn. Næsti leikur ÍA er gegn Víkingi R. á sunnudaginn, 27. september næstkomandi. Hann verður leikinn á Akranesi.

Líkar þetta

Fleiri fréttir