Erla Karitas Jóhannesdóttir skoraði eina mark ÍA í leiknum gegn Aftureldingu. Ljósm. gbh.

Máttu sætta sig við tap á heimavelli

Skagakonur máttu játa sig sigraðar gegn Aftureldingu, 1-3, þegar liðin mættust í 1. deild kvenna í knattspyrnu. Leikið var á Akranesvelli í gærkvöldi.

Fyrri hálfleikur var markalaus en dró til tíðinda á 58. mínútu leiksins þegar gestirnir úr Mosfellsbæ fengu vítaspyrnu. Alda Ólafsdóttir fór á punktinn og kom Aftureldingu yfir. Ragna Guðrún Guðmundsdóttir bætti öðru marki gestanna við á 67. mínútu og þannig stóðu leikar þar til á 79. mínútu að Erla Karitas Jóhannesdóttir minnkaði muninn fyrir Skagakonur. Það var síðan Maeve Anne Burger sem innsiglaði 1-3 sigur Aftureldingar á 86. mínútu leiksins.

ÍA hefur tólf stig í 8. sæti deildarinnar þegar 15 umferðir hafa verið leiknar. Liðið er sex stigum á eftir Víkingi R. en meira er vert um að Skagakonur hafa fimm stiga forskot á Fjölni sem situr í fallsætinu fyrir neðan þegar þrír leikir eru eftir í mótinu. Fjölniskonur eru einmitt næsti andstæðingur ÍA. Með sigri í þeim leik geta Skagakonur tryggt sæti sitt í deildinni að ári. Viðureign ÍA og Fjölnis fer fram á Akranesvelli næstkomandi mánudagskvöld, 28. september.

Líkar þetta

Fleiri fréttir