Simað fyrir veirunni á Akranesi í vor. Ljósm. úr safni/ kgk.

Hópar þurfi ekki að fara um langan veg í sýnatöku

Aðgerðastjórn á Vesturlandi vonast til þess að þurfi ekki að senda stóra hópa fólks, sem kunna að vera útsettir fyrir Covid-19 smiti, um langan veg til sýnatöku eins og raunin varð um sýnatöku vegna tilviks tengdu íþróttamiðstöðinni á Jaðarsbökkum á Akranesi. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Lögreglustjóranum á Vesturlandi. Sem kunnugt er þurfti stór hluti þeirra sem taldir voru útsettir fyrir smiti þar að fara til Reykjavíkur í sýnatöku síðastliðinn þriðjudag. Vonast aðgerðastjórn til að slíkt endurtaki sig ekki.

Handþvottur og nándarreglan

Að öðrum kosti hvetur lögreglustjóri almenning til að huga að persónulegum smitvörnum eins og handþvotti nú þegar Covid-19 smitum hefur fjölgað á nýjan leik. Eins að eins metra nándarregla sé virt og fólk noti grímur þegar ekki er hægt að virða hana, sem og þar sem loftgæði eru slæm. Þá er mælt með því að vinnustaðir bjóði starfsfólki að sinna starfi sínu í fjarvinnu, þar sem starfsemi fyrirtækja gæti farið úr skorðum ef ekki er gætt að smitvörnum og margir þurfa að fara í sóttkví.

Lögreglustjórinn áréttar að skimanir eru fyrst og fremst ætlaðar þeim sem hafa verið útsettir fyrir smitum. Heilsugæsla í nærumhverfi hver og eins sinnir þeim sem eru með sjúkdómseinkenni. „Lögreglustjóri telur brýnt að fylgt sé því verklagi að einstaklingar fari í sóttkví eftir að rakningateymi almannavarna hefur sett sig í samband við viðkomandi. Þeim skilaboðum hefur umdæmislæknir sóttvarna á Vesturlandi komið á framfæri við sóttvarnalækni,“ segir í tilkynningu lögreglustjóra.

Líkar þetta

Fleiri fréttir