Ljósm. úr safni/ sá.

Fáliðaðar Snæfellskonur töpuðu fyrsta leiknum

Snæfell mátti sætta sig við tap gegn nýliðum Fjölnis, 91-60, þegar liðin mættust í fyrstu umferð Domino’s deildar kvenna í körfuknattleik. Viðureignin fór fram í Grafarvogi í gærkvöldi. Snæfellskonur voru fáliðaðar, en vegna hópsmits Covid-19 í Stykkishólmi gat liðið aðeins teflt fram sjö leikmönnum. Aðrir leikmenn liðsins eru í sóttkví. Munar heldur betur um minna eins og kom í ljós í leiknum.

Jafnt var á með liðunum en lítið skorað fyrstu sex mínúturnar, en að þeim loknum var staðan jöfn, 7-7. Þá tóku Snæfellskonur við sér, skoruðu 14 stig gegn þremur næstu mínúturnar og leiddu 10-21 eftir fyrsta leikhluta. Snæfellskonur höfðu yfirhöndina lengst af í öðrum leikhluta. Mest leiddu þær með 16 stigum um hann miðjan, en þegar dró nær hálfleik sóttu heimakonur í sig veðrið og tókst að minnka forskot Snæfells í tvö stig áður en flautað var til hálfleiks, 39-41.

Fjölniskonur réðu lögum og lofum í síðari hálfleik. Þær skoruðu 30 stig gegn tíu í þriðja leikhluta og höfðu því náð 18 stiga forskoti fyrir lokafjórðunginn. Snæfellskonur náðu ekki að svara í lokafjórðungnum og Fjölnir skilaði sigrinum því örugglega í hús.

Iva Gergieva var atkvæðamest í liði Snæfells með 18 stig, tíu fráköst, sjö stoðsendingar og fjóra stolna bolta. Anna Soffía Lárusdóttir skoraði 14 stig og tók 14 fráköst, Tinna Guðrún Alexandersdóttir var með 13 stig og fimm fráköst, Vaka Þorsteinsdóttir skoraði sjö stig og Ingigerður Sól Hjartardóttir skoraði þrjú stig.

Fiona O’Dwyer skoraði 20 stig fyrir fjölni, tók 16 fráköst og gaf fimm stoðsendingar. Emme Sóldís Svan Hjörleifsdóttir skoraði 18 stig, Lina Pikciuté skoraði 17 stig og tók tólf fráköst og Margrét Ósk Einarsdóttir var með ellefu stig.

Snæfellskonur sitja í sjöunda sæti deildarinnar, án stiga eins og liðin þrjú í kringum þær sem einnig töpuðu sínum fyrsta leik í mótinu. Næst leika Snæfellskonur gegn Haukum  miðvikudaginn 30. september, í fyrsta heimaleik vetrarins.

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Látrabjarg er nú friðlýst

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, hefur skrifað undir plagg til friðlýsingar Látrabjargs. Viðstaddir undirskriftina voru fulltrúar Bjargtanga, félags land-... Lesa meira