Keira Robinson setur niður stökkskot í bikarúrslitum síðasta vetur. Ljósm. úr safni/ kgk.

Karfan byrjar í kvöld

Íslandsmótið í körfuknattleik hefst í kvöld, þegar keppni hefst í Domino’s deild kvenna. Upphafsleikur mótsins er viðureign  Fjölnis og Snæfells í Grafarvogi kl. 18:30, en aðrir leikir hefjast kl. 19:15. Þeirra á meðal er viðureign Hauka og Skallagríms í Hafnarfirði.

Vesturlandsliðunum tveimur hefur verið spáð misjöfnu gengi í Domino’s deildinni þennan veturinn. Skallagrími er spáð toppbaráttu en Snæfelli botnbaráttu. Það kemur í ljós þegar stig vetrarins hafa verið talin saman hvort þær spár rætast.

Í Skessuhorni vikunnar er rætt við þjálfara Skallagríms og Snæfells, sem stefna báðir á að koma sínum liðum í úrslitakeppnina um Íslandsmeistaratitilinn í vor.

Áhorfendur leyfðir

Körfuknattleikssamband Íslands hefur, í samráði við yfirvöld, ákveðið að heimila áhorfendum að mæta á leiki að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Þannig mega aldrei fleiri sitja í stúku en sem nemur þriðjungi heildarfjölda sæta í stúku, en þó aldrei fleiri en 200 manns. Ef tvær aðskildar stúkur eru sitt hvorum megin vallar og hægt að tryggja aðskildar inn- og útgönguleiðir að stúkunum, má sitja í þeim báðum.

Áhorfendur skulu gæta að eins metra fjarlægðarmörkum við fólk sem það er ekki í nánum tengslum við og hver og einn þarf að gæta að eigin sóttvörnum. Aðstandendur leikja skulu tryggja að ekki verði hópamyndun á leikjum.

Vert er að geta þess að þetta á ekki við um fyrstu umferð minnibolta 11 ára. Þar er áhorfendabann. Er það tilkomið vegna þess að ekki er hægt að svæðaskipta íþróttahúsum eins og gildandi reglur KKÍ segja til um. Allt húsið er þá skilgreint sem keppnissvæði og áhorfendur mega ekki fara inn á keppnissvæði, óháð aldri keppenda. Reglur um áhorfendabann á fjölvalla fjölliðamótum munu gilda þar til annað verður tilkynnt, að því er fram kemur á vef KKÍ.

Líkar þetta

Fleiri fréttir