Keira Robinson setur niður stökkskot í bikarúrslitum síðasta vetur. Ljósm. úr safni/ kgk.

„Erum allar í þessu til að vinna og ná árangri“

Guðrún Ósk Ámundadóttir, þjálfari Skallagríms. Ljósm. úr safni/ Skallagrímur.

– segir Guðrún Ámundadóttir, þjálfari Skallagríms

Skallagrímur hefur leik í Domino‘s deild kvenna í körfuknattleik í kvöld, miðvikudaginn 23. október, þegar liðið mætir Haukum í Hafnarfirði. Skallagrímskonur áttu góðu gengi að fagna í körfunni síðasta vetur. Liðið varð bikarmeistari í fyrsta sinn í sögu félagsins í febrúar og sat í 4. sæti deildarinnar þegar tímabilið var blásið af í mars.

Það er útlit fyrir að Skallagrímskonur mæti með afar sterkt lið til leiks þegar deildin hefst í kvöld. Er stefnan sett á Íslandsmeistaratitilinn? „Markmiðið er að komast í úrslitakeppnina og svo ætlum við að taka stöðuna í framhaldi af því,“ segir Guðrún Ósk Ámundadóttir, þjálfari Skallagríms, í samtali við Skessuhorn á föstudag. „En við erum með sterkt lið og auðvitað erum við allar í þessu til að vinna og ná árangri,“ segir hún.

Ánægð með hópinn

Guðrún segir að aðstandendur liðsins hafi snemma farið að huga að því að setja saman liðið. Vinna við það hófst strax í maí og hún er ánægð með hvernig til tókst. „Sumarið fór í þetta og ég held að okkur hafi tekist vel að fullmanna liðið. Ég er mjög ánægð með hópinn. Þetta eru flottar stelpur, mikil gleði í hópnum og við erum spenntar fyrir tímabilinu,“ segir hún. Frá því síðasta vor hefur framherjinn Sanja Orozovic gengið til liðs við Skallagrím, en hún lék áður með KR og var ein af bestu leikmönnum deildarinnar í sinni stöðu síðastliðinn vetur. Landsliðskonan Embla Kristínardóttir gekk til liðs við Borgnesinga síðastliðið vor og í sumar var samið við miðherjann Nikitu Telesford. Þá hafa samningar verið endurnýjaðir við kjarna leikmanna sem spilað hafa með liðinu undanfarin ár. Leikstjórnandinn Keira Robinson verður áfram í herbúðum Skallagríms, en hún var einn besti leikmaður Íslandsmótsins síðastliðinn vetur. Þá var nýverið greint frá því að Sigrún Sjöfn Ámundadóttir og Maja Michalska myndu taka slaginn með Skallagrími á komandi keppnistímabili, en þær hafa leikið stórt hlutverk í liðinu undanfarin ár.

Sterk vörn og góður andi

Þjálfarinn segir undirbúning Skallagrímsliðsins hafa gengið vel, þrátt fyrir að stutt sé síðan körfuknattleikslið landsins máttu hefja æfingar vegna sóttvarnaráðstafana. Þess utan byrjar tímabilið í ár örlítið fyrr en venjulega, eða rúmri viku fyrr. En það á jafnt við um öll lið deildarinnar. „Þetta er auðvitað minni undirbúningur en maður hefði viljað fá. En þá þarf maður bara að nýta vel þann tíma sem maður fær og við verðum alveg klárar í slaginn þegar mótið byrjar,“ segir Guðrún.

Spurð hvort stuðningsmenn megi eiga von á einherjum breytingum í leik liðsins segir Guðrún svo ekki vera. „Við fórum langt á varnarleiknum í fyrra og markmiðið er að vera með sömu ákefð í vörninni í vetur. Liðsheldin var sömuleiðis virkilega sterk í fyrra og kom okkur mjög langt. Við munum áfram leggja áherslu á að hafa góðan liðsanda, hafa gaman af þessu og njóta þess að spila körfubolta,“ segir Guðrún Ósk Ámundadóttir að endingu.

Líkar þetta

Fleiri fréttir