Ljósm. úr safni/ gbh.

Öruggur sigur ÍA

Skagamenn unnu öruggan sigur á Gróttu, 3-0, þegar liðin mættust í Pepsi Max deild karla í knattspyrnu í gærkvöldi. Leikið var á Akranesvelli og það voru Skagamenn sem réðu ferðinni allan leikinn. Þeir sóttu stíft í upphafi leiks og náðu að brjóta ísinn á 26. mínútu þegar Tryggvi Hrafn Haraldsson skorað beint úr hornspyrnu. Hann spyrnti frá vinstri og vindurinn tók aðeins í boltann, sem sveif í netið á nærstönginni.

Tvisvar í fyrri hálfleiknum voru gestirnir af Seltjarnarnesi nálægt því að skora sjálfsmark en sköpuðu ekki eins mikla hættu við mark ÍA. Skagamenn áttu nokkrar ágætar sóknir það sem eftir lifði fyrri hálfleiks en tókst ekki að bæta við marki og staðan því 1-0 í hléinu.

Skagamenn voru áfram sterkari í síðari hálfleik, án þess þó að ná að skapa sér nein álitleg marktækifæri. Vindurinn gerði leikmönnum á köflum erfitt fyrir og á einum tímapunkti tók meira en mínútu að taka aukaspyrnu úti á velli, þar sem boltinn hélst ekki kyrr.

Á 82. mínútu dró til tíðinda að nýju. Gísli Laxdal Unnarson átti þá fyrirgjöf með jörðinni sem Gróttumenn voru klaufar að ná ekki að hreinsa í burtu. Að lokum barst boltinn fyrir fætur Sigurðar Hrannar Þorsteinssonar sem skoraði með snyrtilegu skoti í markhornið. Fimm mínútum síðar fengu Skagamenn vítaspyrnu, þegar brotið var á Tryggva í vítateigsjaðrinum vinstra megin. Tryggvi fór sjálfur á punktinn, skoraði af miklu öryggi og innsiglaði öruggan sigur ÍA, 3-0.

Með sigrinum lyftu Skagamenn sér upp í 8. sæti deildarinnar. Liðið hefur nú 17 stig, einu stigi minna en HK í sætinu fyrir ofan en með tveggja stiga forskot á Víking R., sem á þó leik til góða. Næsti leikur ÍA er útileikur gegn Fjölni á fimmtudaginn, 24. september.

Líkar þetta

Fleiri fréttir