Gonzalo Zamorano og félagar hans í Víkingi Ó. fóru svekktir úr Mosfellsbænum. Ljósm. úr safni/ af.

Nýttu ekki færin sín

Liðsmenn Víkings Ó. máttu játa sig sigraða gegn Aftureldingu þegar liðin mættust í 1. deild karla í knattspyrnu í gærkvöldi. Leikið var í Mosfellsbæ og lauk leiknum með 1-0 sigri heimamanna. En það var ekki eins og Ólafsvíkingar hafi ekki fengið tækifæri til að koma boltanum í netið. Þau fóru hins vegar forgörðum og því fór sem fór.

Leikurinn var nokkuð líflegur framan af fyrri hálfleiknum. Bæði liðin sóttu og ógnuðu marki, án þess þó að skora fyrsta hálftímann. Gonzalo Zamorano átti góðan sprett á 16. mínútu, þar sem hann kom sér inn í vítateig Aftureldingar en skot hans fór rétt framhjá markinu. Það var á 32. mínútu sem eina mark leiksins leit dagsins ljós. Afturelding átti fyrirgjöf fyrir markið á Jason Daða Svanþórsson sem átti skot í samherja, áður en Kári Steinn Hlífarsson mætti á ferðinni og þrumaði boltanum í netið.

Síðari hálfleikur var fjörugur í upphafi, leikurinn hraður og bæði lið vildu greinilega koma boltanum í netið. Bjartur Bjarmi Barkarson fékk dauðafæri til að jafna eftir fyrirgjöf á 68. mínútu en mokaði boltanum yfir markið. Skömmu síðar átti Vignir Snær Stefánsson þrumufleyg af 30 metrum en Jon Tena varði glæsilega í marki Aftureldingar. Gonzalo fékk síðan mjög gott marktækifæri en hitti boltann illa. Ólafsvíkingar lágu á heimamönnum undir lokin en tókst ekki að koma boltanum í netið. Því fór sem fór og Afturelding sigraði með einu marki gegn engu.

Víkingur Ó. hefur 16 stig í 9. sæti deildarinnar, fjórum stigum meira en Þróttur R. í sætinu fyrir neðan en fimm stigum á eftir Aftureldingu. Næsti leikur Ólafsvíkinga er útileikur gegn Leikni F. á Fáskrúðsfirði á laugardaginn, 26. september næstkomandi.

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Látrabjarg er nú friðlýst

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, hefur skrifað undir plagg til friðlýsingar Látrabjargs. Viðstaddir undirskriftina voru fulltrúar Bjargtanga, félags land-... Lesa meira