Skallagrímskonur með bikarinn. Ljósm. Skallagrímur/ Ómar Örn.

Skallagrímskonur eru Meistarar meistaranna

Skallagrímur sigraði Val, 74-68, þegar leikið var um titilinn Meistarar meistaranna í körfuknattleik kvenna. Leikið var í Borgarnesi í gærkvöldi.

Nokkur haustbragur var á leik liðanna framan af leik. Lítið var skorað í upphafi og staðan var 2-2 eftir þrjár mínútur. Liðin tóku þó við sér eftir því sem leið á og Valur leiddi 14-17 eftir upphafsfjórðunginn. Valur hélt forystunni áfram í öðrum leikhluta en Skallagrímskonur fylgdu fast á hæla þeirra. Gestirnir leiddu með einu stigi í hálfleik, 31-32 og leikurinn galopinn.

Í upphafi síðari hálfleiks skildu leiðir. Skallagrímskonur voru mjög ákveðnar og náðu miklum spretti þar sem þær skoruðu 14 stig gegn engu. Valskonur voru heillum horfnar og virtust hreinlega ekki mættar úr hléinu. Eftir fimm mínútur í þriðja leikhluta voru Skallagrímskonur komnar 13 stigum yfir, 52-39. Þá hrökk Valsliðið loksins í gang og skoraði 14 stig gegn einu og leikurinn orðinn hnífjafn. Skallagrímskonur áttu svo fínan sprett undir lok þriðja leikhluta og leiddu með fimm stigum fyrir lokafjórðunginn, 58-53. Þar tóku Skallagrímskonur aftur öll völd á vellinum. Þær hleyptu Val aldrei nær sér en sem nam fimm stigum það sem eftir lifði leiks og sigruðu að lokum með sex stiga mun, 74-68. Það eru því Skallagrímskonur sem eru Meistarar meistaranna 2020.

Keira Robinson var atkvæðamest í liði Skallagríms með 21 stig, fimm stoðsendingar og fjóra stolna bolta. Sanja Orozovic skoraði 16 stig og tók sex fráköst, Nikita Telesford var með tólf stig, tíu fráköst og þrjú varin skot. Embla Kristínardóttir skoraði tíu stig, Sigrún Sjöfn Ámundadóttir skoraði átta stig og tók fimm fráköst, Maja Michalska skoraði fimm stig og stal fjórum boltum og Árnína Lena Rúnarsdóttir skoraði tvö stig.

Hildur Björg Kjartansdóttir var stigahæst í liði Vals með 22 stig og sjö fráköst að auki. Guðbjörg Sverrisdóttir skoraði 16 stig og tók sjö fráköst og Dagbjört Dögg Karlsdóttir var með tíu stig, níu stoðsendingar og fimm fráköst.

Líkar þetta

Fleiri fréttir