Ljósm. úr safni/ gbh.

Dramatík undir lokin þegar ÍA tapaði gegn Val

Sex mörk litu dagsins ljós þegar ÍA tók á móti toppliði Val í Pepsi Max deild karla í knattspyrnu á fimmtudagskvöld. Því miður fyrir Skagamenn skoruðu gestirnir fjögur markanna og fóru því með 2-4 sigur af hólmi.

Valsmenn byrjuðu leikinn af miklum krafti og komust yfir strax á 6. mínútu. Eftir að hafa komist inn fyrir vörn Skagamanna átti Sigurður Egill Lárusson skot að marki sem Óttar Bjarni Guðmundsson henti sér fyrir og bjargaði þannig á síðustu stundu. Árni Snær Ólafsson markvörður fékk boltann og ætlaði að senda hann fram völlinn, en þrumaði honum í bakið á samherja. Þaðan féll boltinn fyrir fætur Patrick Pedersen utan vítateigs sem var fljótur að hugsa og lyfti honum yfir Árna Snæ og í netið.

Á 22. mínútu tók Hannes Þór Halldórsson langt útspark frá marki Vals. Varnarmenn ÍA misreiknuðu boltann svo hann fór inn fyrir vörnina fyrir fætur Sigurðar Egils Lárussonar sem afgreiddi færið snyrtilega. Á 31. mínútu komust Valsmenn í 3-0 þegar Patrick Pedersen skoraði sitt annað mark eftir laglegt þríhyrningaspil við Kristin Frey Sigurðsson.

Þannig var staðan í hálfleik, en hún hefði getað verið öðruvísi því Skagamenn fengu líka sín færi í fyrri hálfleiknum. Þeir hefðu getað jafnað í stöðunni 0-1 en sóknarmenn ÍA rétt misstu af boltanum fyrir opnu marki eftir góða sendingu frá Jóni Gísla Eyland Gíslasyni. Tryggvi Hrafn Haraldsson fékk dauðafæri eftir langa spyrnu frá Árna Snæ rétt áður en Valsmenn skoruðu þriðja markið, en skaut framhjá.

Skagamenn voru mun einbeittari í síðari hálfleik en í þeim fyrri, en þurftu þó að bíða örlítið eftir því að koma boltanum í netið. Á 74. mínútu kom fyrirgjöf frá hægri sem Valsmenn áttu í mesta basli með að koma í burtu. Að lokum náði Brynjar Snær Pálsson að koma tánni í boltann og moka honum yfir marklínuna.  Sex mínútum síðar slapp Gísli Laxdal Unnarsson einn í gegn hægra megin eftir góða sendingu aftur fyrir vörnina. Hann setti boltann milli fóta Hannesar í markinu og í netið. Staðan orðin 2-3 og mikil spenna komin í leikinn.

Spennustigið var hátt og á lokamínútu leiksins ætlaði allt um koll að keyra eftir að boltinn virtist fara í hönd Rasmus Christanesen í vítateig Valsmanna. Skagamenn vildu vítaspyrnu en Guðmundur Ársæll Guðmundsson, dómari leiksins, dæmdi ekkert. En í kjölfarið fengu Skagamenn hornspyrnu. Þeir fylltu vítateiginn af leikmönnum og freistuðu þess að jafna. Þess í stað unnu Valsmenn boltann og brunuðu óáreittir af stað í sókn, því Skagamenn voru afskaplega fáliðaðir til baka. Sókninni lauk með því að Kaj Leo í Bartalsstovu lyfti boltanum yfir Árna Snæ með skoti frá miðjuboganum og tryggði Val 2-4 sigur.

Skagamenn nú aðeins fengið eitt stig úr síðustu fimm leikjum sínum. Þeir hafa 14 stig í 10. sæti deildarinnar, jafn mörg og Víkingur R. og KA í sætunum fyrir ofan en með sjö stiga forskot á Gróttu. Seltirningar eru einmitt næstu andstæðingar Skagamanna. ÍA og Grótta mætast á Akranesvelli á sunnudaginn, 20. september næstkomandi.

Líkar þetta

Fleiri fréttir