Ljósm. úr safni/ gbh.

Mikilvægur sigur Skagakvenna

ÍA lagði botnlið Völsungs með tveimur mörkum gegn einu, þegar liðin mættust í 1. deild kvenna í knattspyrnu. Leikið var á Húsavík á í gærkvöldi. Sigurinn tryggði Skagakonum mikilvæg stig og liðið fjarlægist botnliðin fyrir lokasprettinn í deildinni.

Fyrri hálfleikur var markalaus en í upphafi síðari hálfleiks dró til tíðinda þegar Skagakonur fengu vítaspyrnu. Unnur Ýr Haraldsdóttir fór á punktinn á 47. mínútu, skoraði og kom ÍA yfir í leiknum. En Skagakonur höfðu forystuna ekki lengi. Aðeins fjórum mínútum síðar tókst Guðrúnu Þóru Geirsdóttur að jafna metin fyrir Völsung, 1-1. En á 62. mínútu skoraði Dagný Halldórsdóttir og kom Skagakonum yfir að nýju. Reyndist það vera sigurmarkið, en öll þrjú mörk leiksins litu dagsins ljós á þessum 14 mínútna kafla í síðari hálfleik. Skagakonur fóru því með sigur af hólmi á Húsavík, 1-2.

Gengi Skagakvenna hafði verið brösulegt undanfarið, liðið hafði tapað síðustu fjórum leikjum sínum fyrir viðureignina gegn Völsungi og sigurinn á Húsavík tryggði því mikilvæg þrjú stig í botnbaráttunni. ÍA hefur tólf stig og er nú fimm stigum á undan Fjölni sem situr í næstneðsta sæti deildarinnar þegar fimm leikir eru eftir í mótinu. Næst eiga Skagakonur erfiðan útileik fyrir höndum gegn toppliði Tindastóls. Liðin mætast á Sauðárkróksvelli á laugardaginn, 19. september næstkomandi.

Líkar þetta

Fleiri fréttir