Ljósm. úr safni/ sá.

Mikill skellur í lokaleiknum

Snæfellingar hafa ekki riðið feitum hesti frá keppni í 4. deild karla í knattspyrnu þetta sumarið. Þeir mættu SR á útivelli í lokaleik tímabilsins í gær og töpuðu mjög stórt, 11-0.

Það var gamla markamaskínan Hjörtur Júlíus Hjartarson sem skoraði fyrstu tvö mörk leiksins, bæði úr vítaspyrnum. Það fyrra á 4. mínútu og það seinna á 40. mínútu. Staðan var þannig 2-0 í hléinu en í síðari hálfleik brustu allar flóðgáttir. Jón Konráð Guðbergsson kom SR í 3-0 strax á upphafsfmínútu seinni hálfleiks. Rúmum tíu mínútum síðar skoraði Aron Dagur Heiðarsson tvö mörk á tveimur mínútum, áður en Hjörtur skoraði þrijða mark sitt á 62. mínútu. Þremur mínútum síðar var Aron Dagur einnig kominn með þrennu og SR komið 7-0 yfir. Hjörtur gerði sér lítið fyrir og skoraði þrjú mörk til viðbótar áður en leikurinn var úti og samtals sex mörk í leiknum, og Jón Konráð skoraði sitt annað mark. Fór SR því með 11-0 stórsigur af hólmi.

Snæfellingar fengu aðeins eitt stig í tólf leikjum í B riðlinum allt sumarið, en það kom í 1-1 jafntefli gegn Birninum á útivelli seint í júnímánuði. Síðan þá hefur hvorki gengið né rekið hjá liði Hólmara, sem ljúka keppni í 7. og neðsta sæti riðilsins, níu stigum á eftir næsta liði fyrir ofan.

Líkar þetta

Fleiri fréttir