Ljósm. úr safni/ glh.

Kvöddu mótið með stæl

Skallagrímsmenn unnu stórsigur á KM, 5-0, þegar liðin mættust í 4. deild karla í knattspyrnu í gær. Leikið var á Skallagrímsvelli og var þetta síðasti leikur Borgnesinga í deildinni þetta sumarið. Á miðvikudaginn töpuðu Borgnesingar gegn KFB og þar með varð veik von Skallagríms um sæti í úrslitakeppni 4. deildar að engu.

En þeir mættu ákveðnir til síðasta leiks sumarsins og tókst að brjóta ísinn á 29. mínútu með marki frá Viktori Inga Jakobssyni. Sigurjón Ari Guðmundsson kom Borgnesingum í 2-0 á lokamínútu fyrri hálfleiks og þannig var staðan í hléinu.

Næst dró til tíðinda á 68. mínútu leiksins, þegar Ignacio De Haro Lopez var vikið af velli með sitt annað gula spjald og máttu gestirnir því leika manni færri það sem eftir lifði. Stuttu síðar skoraði Sölvi G Gylfason þriðja mark Skallagríms og Viktor Ingi bætti fjórða marki Borgnesinga við úr vítaspyrnu á 83. mínútu. Viktor innsiglaði síðan 5-0 stórsigur heimamanna á lokamínútu leiksins.

Skallagrímsmenn ljúka keppni í 4. sæti C riðils með 22 stig, sex stigum á undan Samherjum en átta stigum á eftir Ísbirninum. Borgnesingar munu því leika í 4. deildinni að nýju næsta sumar.

Líkar þetta

Fleiri fréttir