Harley Willard í baráttu við varnarmann Grindvíkinga. Ljósm. af.

Jafnt á Ólafsvíkurvelli

Lið Víkings Ó. og Grindavíkur skildu jöfn, 2-2, þegar þau mættust í 1. deild karla í knattspyrnu á laugardaginn. Leikið var í Ólafsvík.

Gestirnir frá Grindavík voru öflugri í upphafi og komust yfir strax á 11. mínútu leiksins. Eftir innkast barst boltinn á Aron Jóhannsson sem lagði hann snyrtilega framhjá Konráð Ragnarssyni í marki Ólafsvíkinga og í netið.

Bæði lið sýndu ágæta sóknartilburði eftir að fyrsta markið leit dagsins ljós. Eftir því sem leið á voru það þó heimamenn sem voru beittari í sínum aðgerðum. Þeir voru nálægt því að komast yfir á 33. mínútu eftir laglega sókn Grindvíkingar komust fyrir skot Billy Steadman á marklínu. Eftir það datt leikurinn aðeins niður og ekkert markvert gerðist þar til flautað var til hálfleiks.

Síðari hálfleikur fór heldur betur fjörlega af stað. Grindvíkingar komust upp vinstri kantinn á 53. mínútu og sendu boltann fyrir. Aron skallaði hann í þverslána, en þaðan fór boltinn í bakið á Konráð markverði og í netið. En gestirnir héldu tveggja marka forystunni ekki lengi, því aðeins mínútu síðar minnkaði Harley Willard metin með skoti frá vítateigsboganum.

Ólafsvíkingar sóttu í sig veðrið eftir að þeir minnkuðu muninn. Þeir fengu óvænta aðstoð frá Josip Zeba á 65. mínútu, þegar hann gaf Gonzalo Zamorano olnbogaskot og hlaut rautt spjald að launum. Þurftu gestirnir því að leika manni færri það sem eftir lifði leiks. Grindvíkingar féllu langt til baka og freistuðu þess að halda fengnum hlut. En að lokum tókst Ólafsvíkingum að brjóta þéttan múr gestanna. Á 77. mínútu sendi Harley boltann fyrir á Gonzalo sem tók laglega á móti honum og lagði hann snyrtilega í fjærhornið. Fleiri mörk voru ekki skoruð og leiknum lauk því með jafntefli, 2-2.

Víkingur Ó. hefur 16 stig í 8. sæti deildarinnar, stigi meira en Afturelding en fjórum stigum á eftir Vestra. Næsti leikur Ólafsvíkinga er útileikur gegn Þór. Hann fer fram á Akureyri á miðvikudaginn, 16. september.

Líkar þetta

Fleiri fréttir