Ljósm. úr safni/ gbh.

Fjórða tapið í röð

Skagakonur þurftu að játa sig sigraðar þegar þær mættu Augnabliki í 1. deild kvenna í knattspyrnu á föstudagskvöld. Leikið var á Kópavogsvelli og lauk leiknum með 2-1 sigri Augnabliks. Var þetta fjórða tap Skagakvenna í röð.

Skagakonur byrjuðu vel í leiknum og komust yfir strax á 11. mínútu þegar Erna Björt Elíasdóttir skoraði. En tólf mínútum síðari jafnaði Margrét Brynja Kristinsdóttir metin fyrir Augnablikskonur og staðan var jöfn þegar liðin gengu til búningsherbergja í hálfleik.

Lengi vel virtist sem leiknum myndi enda með jafntefli, því sigurmarkið lét bíða eftir sér. Það kom ekki fyrr tveimur mínútum fyrir lok venjulegs leiktíma, þegar Margrét Lea Gísladóttir skoraði og tryggði Augnabliki sigurinn, 2-1.

Skagakonur hafa níu stig í 8. sæti deildarinnar, sex stigum minna en Augnablik en hafa tveggja stiga forskot á Fjölni í sætinu fyrir neðan. Næsti leikur Skagakvenna fer fram annað kvöld, þriðjudaginn 15. september, þegar þær mæta Völsungi norður á Húsavík.

Líkar þetta

Fleiri fréttir