Ljósm. úr safni/ gbh.

Biðu lægri hlut í fjörugum leik

Skagamenn biðu lægri hlut gegn HK, 3-2, þegar liðin mættust í Pepsi Max deild karla í knattspyrnu. Leikið var í Kópavogi í gær.

Leikurinn byrjaði fjörlega, bæði lið sýndu prýðilega sóknartilburði framan af fyrri hálfleik og ísinn var svo brotinn á 23. mínútu. Jón Arnar Barðdal gerði þá vel í vítateig ÍA, sendi boltann út fyrir Ásgeir Marteinsson sem kom á ferðinni og skoraði með föstu skoti í fjærhornið. Aðeins fjórum mínútum síðar skoruðu HK-ingar sitt annað mark. Boltinn var sendur upp hægri kantinn á Valgeir Valgeirsson, sem fór illa með tvo varnarmenn ÍA áður en hann sendi boltann á Ólaf Örn Eyjólfsson sem skoraði.

En fjörið í fyrri hálfleik var langt því frá að vera búið. Stuttu eftir að hafa lent 2-0 undir fengu Skagamenn hornspyrnu. Brynjar Snær Pálsson tók spyrnuna og sendi boltann beint á Marcus Johansson sem skallaði í netið og minnkaði muninn fyrir Skagamenn. Á 34. mínútu jöfnuðu Skagamenn síðan metin. Tryggvi Hrafn Haraldsson lyfti boltanum á fjærstöng þar sem Hlynur Snær Jónsson skallaði hann fyrir markið á Stefán Teit Þórðarson sem kom honum yfir línuna.

Fleiri mörk voru ekki skoruð í fyrri hálfleik og staðan því jöfn í hléinu, 2-2.

Heimamenn voru nálægt því að komast yfir snemma í síðari hálfleik. Birnir Snær Ingason komst einn í gegn eftir mistök í vörn ÍA en Árni Snær Ólafsson varði glæsilega frá honum. HK-ingar skoruðu síðan sigurmark leiksins á 59. mínútu. Ásgeir Marteinsson sendi boltann inn fyrir vörn ÍA á Jón Arnar sem skoraði með viðstöðulausu skoti í fjærhornið.

Litlu munaði að Skagamenn jöfnuðu metin á 73. mínútu þegar Tryggvi Hrafn var komst einn í gegn en lyfti boltanum rétt yfir markið. Heimamenn skölluðu boltann í þverslána þegar tíu mínútur lifðu leiks og á lokamínútunum fengu Skagamenn tækifæri til að jafna eftir langt innkast, en bakfallsspyrna Sindra Snæs Magnússonar fór beint á Arnar Frey Ólafsson, sem var vel staðsettur í marki HK. Leiknum lauk því með 3-2 sigri heimamanna.

Skagamenn hafa 14 stig í 9. sæti deildarinnar, jafn mörg og Víkingur R. í sætinu fyrir ofan og KA í sætinu fyrir neðan. Næst mætir ÍA toppliði Vals. Sá leikur fer fram á Akranesi á fimmtudaginn, 17. september.

Líkar þetta

Fleiri fréttir