Rakel og Jónbjörn við eldhúsborð sitt í nýja eldhúsinu. Ljósm. glh.

Umturnuðu heimili sínu áður en þau fluttu inn

Rakel Jóhannsdóttir og Jónbjörn Bogason hafa hvergi setið auðum höndum síðan þau festu kaup á Kveldúlfsgötu 1 í Borgarnesi árið 2017. Rakel segir verkefnið, eins og hún lýsir eigninni þeirra hjóna, vera stöðugt. Hún leggur íslensk ræktuð kirsuber frá Svanshóli í Bjarnafirði á Ströndum á borðið fyrir blaðamann Skessuhorns sem forvitnast um framkvæmdir hússins síðustu árin. „Við kaupum húsið í júlí 2017 og flytjum inn 16. júní tæpu ári síðar,“ segir Rakel og leggur kaffibolla á borðið fyrir blaðamann.

Betrekk á veggjum

„Við ætluðum okkur bara að mála og flytja svo inn. Sonur okkar er málari og fengum við hann til að skoða þetta hjá okkur og fara yfir stöðuna. Honum leist ekkert á blikuna, það var nefnilega betrekk á veggjum hérna og ekki sniðugt að mála yfir það,“ bætir Jónbjörn kíminn við.

Húsið er 113 fermetra timburhús frá árinu 1969 og þegar þau hjónin keyptu fasteignina fyrir þremur árum síðan, var lítið sem ekkert búið að gera fyrir það en húsið sjálft í góðu standi. „Það var allt soldið mikið upprunalegt þegar við keyptum. Við ákváðum því að hefja strax framkvæmdir. Við fluttum inn til Ingileifar í september 2017 og fengum að búa þar á meðan við vorum í framkvæmdum,“ útskýrir Rakel. Ingileif er góðvinkona þeirra hjóna og er flestum kunnug í Borgarnesi og héraði sem hársnyrtifræðingur og rekur hún sína eigin stofu, Hárgreiðslustofu Heiðu, í þarnæsta húsi við Rakel og Jónbjörn. Það var því stutt að rölta yfir í framkvæmdirnar á meðan þeim stóð yfir í þessa 10 mánuði sem þau bjuggu hjá Ingileif. „Ef maður klárar ekki allt áður en maður flytur inn þá á maður til að hætta, enda gerðum við það. Forstofan var bara tóm í heilt ár og erum við nýbúin að græja hana,“ segir Jónbjörn og hlær.

Sjá nánar í Skessuhorni sem kom út í dag.

Líkar þetta

Fleiri fréttir