Helga Ólöf Oliversdóttir á Langasandi með kaffisopann sinn. Bollinn er úr stelli sem amma hennar og afi fengu í brúðkaupsgjöf fyrir hundrað árum. Ljósm. mm.

Lætur vita af sér með kaffibollamynd á hverjum degi

Helga Ólöf Oliversdóttir, sjúkraliði á Akranesi, sá það í byrjun Covid-faraldursins síðasta vor að veiran myndi hafa afgerandi áhrif á samskipti og daglegar venjur fólks. Í stað þess að hitta vini sína daglega, til dæmis í skipulögðum gönguferðum, yrði minna úr slíkum mannlegum samskiptum. Sjálf ákvað hún að fara í sjálfskipaða sóttkví. Því fer hún ein á hverjum morgni í gönguferð, tekur með sér kaffibolla og kaffi og stillir bollanum upp í náttúrunni – og tekur mynd. Myndinni póstar hún svo á Facebook-síðu sína, segist hafa með þessu móti getað látið vini og vandamenn vita af sér ef svo má segja. Þessari iðju hefur hún haldið óslitið síðan alla morgna. Er árrisul og hefur farið í sína daglegu morgungöngu klukkan fimm að morgni undanfarna 150 daga.

„Mér fannst þetta jákvætt innlegg í mannlífið. Vinkona mín og nafna, Helga Höskuldsdóttir, átti reyndar hugmyndina. Báðar höfum við haldið svipaðri iðju síðan, en hvor á sinn hátt. Ennþá hittumst við þó af og til með bollana okkar, til dæmis í gær,“ sagði Helga Ólöf þegar blaðamaður hitti hana að máli í fjöruborðinu við Langasand síðastliðinn mánudag.

Rætt er við Helgu í Skessuhorni vikunnar sem kom út í dag, auk þess sem þar er að finna syrpu af kaffibollamyndum hennar.

Líkar þetta

Fleiri fréttir