Borgnesingurinn Bjarki Pétursson, nýkrýndur Íslandsmeistari í golfi. Ljósm. golf.is/ seth.

Bjarki Pétursson er Íslandsmeistari í golfi

Borgnesingurinn Bjarki Pétursson, sem keppir fyrir GKG, varð í gær Íslandsmeistari í golfi. Hann lék á samtals 13 höggum undir pari, sem er nýtt mótsmet.

Bjarki lék lokadag mótsins á 68 höggum og sigraði af miklu öryggi, því næstu menn luku keppni á fimm höggum undir pari. Hann hafði tveggja högga forystu fyrir lokadaginn og hafði sama forskot eftir tólftu holu. Þá setti Bjarki heldur betur í fluggírinn, fékk fimm fugla í röð. Hann fékk síðan skolla á 17. holu en fékk fugl á lokaholunni og setti þar með nýtt mótsmet.

Mun þetta vera í fyrsta skiptið sem Borgnesingar eignast Íslandsmeistara í golfi.

 

Guðrún Brá Íslandsmeistari kvenna

Í kvennaflokki varð Guðrún Brá Björgvinsdóttur úr Keili Íslandsmeistari eftir umspil gegn Ragnhildi Kristinsdóttur úr GR. Þær léku 10., 11. og 18. holuna í umspilinu.

Það var Ragnhildur sem tók forystuna í mótinu á öðrum keppnisdegi og hélt henni þar til á lokaholunni þegar Guðrún jafnaði. Guðrún tryggði sér síðan sigur eftir umspil, eins og fyrr segir.

Líkar þetta

Fleiri fréttir