Leikið á Garðavelli á Akranes. Ljósm. úr safni/ kgk.

Kylfingar landsins aldrei fleiri

Kylfingar á Íslandi hafa aldrei verið fleiri, en 1. júlí síðastiðinn voru skráðir félagsmenn golfklúbba víðs vegar um landið 19.726 talsins. Hefur kylfingum fjölgað um rúmlega 1900 frá síðasta ári, eða sem nemur um 11%, að því er fram kemur á vef Golfsambands Íslands. Aukningin er 25% í flokki 15 ára og yngri og fjölgun félagsmanna í aldursflokkunum 20-29 ára og 30-39 ára er einnig nálægt 25%.

Undanfarna tvo áratugi hefur fjölga mikið í hópi kylfinga hér á landi. Árið 2000 voru 8.500 kylfingar skráðir í golfklúbba landsins og hefur því fjölgað um rúmlega 11.200 undanfarin 20 ár. „Á árunum 2015-2019 var aukningin að meðaltali um 1% á ári eins og sjá má í ársskýrslu GSÍ fyrir árið 2019. Í sögulegu samhengi er árið 2020 því metár þegar kemur að fjölgun félagsmanna á einu ári,“ segir á vef GSÍ.

Þegar kemur að golfklúbbum á Vesturlandi fjölgar kylfingum mest í Golfklúbbnum Leyni, eða um 23% frá fyrra ári. Félagsmönnum í Golfklúbbnum Vestarr fjölgaði um 21% og 14% fleiri eru í Golfklúbbi Borgarness en á síðasta ári. Félagsmenn í Golfklúbbnum Glanna eru 8% fleiri en á síðasta ári en fjöldi félaga í Golfklúbbnum Húsafelli og Golfklúbbi Staðarsveitar stendur í stað. Skráðum félögum í Golfklúbbnum Jökli fækkar um 14% milli ára og um 1% í Golfklúbbnum Mostra, að því er fram kemur á vef GSÍ.

Golfsamband Íslands er orðið næst stærsta íþróttasambandið innan vébanda ÍSÍ, með tæplega 20 þúsund félaga. Knattspyrnusambandið er fjölmennast með um 23 þúsund félaga.

Líkar þetta

Fleiri fréttir